Vildi ekki bjóða sig fram gegn Ólafi Ragnari

Bæring Ólafsson segist vilja gefa til baka til þjóðarinnar.
Bæring Ólafsson segist vilja gefa til baka til þjóðarinnar.

Bæring Ólafsson, forsetaframbjóðandi, ætlaði að bjóða sig árið 2012 en hætti við þar sem hann vildi ekki bjóða fram gegn sitjandi forseta, Ólafi Ragnari Grímssyni.

Bæring segist telja að ferill sinn sé mjög góð undirstaða fyrir starf forseta en hann er meðal annars fyrrum forstjóri og framkvæmdastjóri Coca Cola International. Árið 2012 fór hann á eftirlaun frá fyrirtækinu, aðeins 56 ára gamall, og segir hann að tímasetningin hefði hentað vel.

„En ég vildi ekki bjóða mig fram á móti sitjandi forseta. Ég hef alltaf fundið fyrir stolti gagnvart forseta landsins og tel að menn eigi ekki að bjóða sig fram gegn hæfum og vinsælum forseta. Þar af leiðandi gerði ég það ekki en hugsaði mér þó gott til glóðarinnar: kannski 2016. Nú er tíminn.“

Bæring hefur eitt stórum hluta starfsævi sinnar fjarri Íslandi en segist hafa fylgst mjög vel með enda eigi hann hér bæði börn og barnabörn sem og stóran vinahóp. Eins geti komið að gagni að hafa annað sjónarhorn. Hann sé alinn upp á Íslandi og hafi héðan sinn kraft og vilja. Nú sé tími til kominn að gefa til baka.

„Ég held að starfið sé mjög krefjandi og gefi mínum hæfileikum sem eru reynsla, þekking og kraftur – bæði á innlendum og erlendum vettvangi tækifæri til að koma að góðu gagni fyrir þjóðina. Ég held líka að þjóðin þurfi á sterkum leiðtoga að halda sem er heiðarlegur, hæfur traustur og óháður.“

Rose kæmi með á Bessastaði

Eiginkona Bærings til 21 árs, Rose Olafsson, er sjálf ekki ókunnug embættisstörfum því hún er bæjarstjóri heimabæjar síns á Filipseyjum.

„Hún var kosin fyrir þremur árum og ég hef stutt hana. Hún er hörkukona og hefur tekið vel á málum þar með gífurlegum árangri og ég kem til með að styðja og styrkja hana í framtíðinni á hennar framabraut. En ef ég næ kjöri hér erum við búin að ákveða að hún muni styðja mig og flytja hingað og við yrðum öll saman hér sem fjölskylda.“

Inntur eftir því hvort embættisstörf eiginkonunnar hafi verið honum innblástur hvað forsetaframboðið varðar segir Bæring svo ekki vera; forsetadraumurinn hafi blundað í honum lengi. Hann hafi alltaf séð fyrir sér að ef hann myndi snúa aftur til Íslands væri það af því að hann væri alfarið hættur að vinna eða þá til að starfa í þágu þjóðarinnar.

Vill sameina þjóðina

„Ég held að stærsta verkefni verðandi forseta Íslands sé að sameina þjóðina. Þjóðin virðist vera í miklum ólgusjó og ég held það þurfi mann sem hefur reynslu til að sameina þjóðina um þau markmið og málefni sem tryggja framtíðin fyrir landið í staðinn fyrir að vera að einblína of mikið á mistök fólks í fortíðinni og í smámálum,“ segir Bæring.

Aðspurður um hvort eitthvað eitt málefni sé mikilvægara en annað nefnir hann aldraða, öryrkja og ungt fólk sem hyggur á nám. Mikilvægt sé að forgangsraða í þeirra þágu vilji Ísland raunverulega kalla sig velferðarsamfélag.

„Ég held það sé skylda okkur að hugsa vel um aldraða og öryrkja og unga fólkið sem þarf að mennta svo það geti farið fram í lífið og byggt upp þjóðfélagið þannig að við getum skilað af okkur betra landi til næstu kynslóðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka