Með óbeit á framsókn

Vilhjálmur Bjarnason.
Vilhjálmur Bjarnason.

Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að upplýsingar um umræðan um eignir eiginkonu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, á Tortola, hafi komið illa við samstarfsflokkinn í ríkisstjórninni. Þetta kom fram í máli Vilhjálms í Vikulokunum á Rás1. 

Hann segir að það þurfi ekki endilega að þýða að ráðherra eða þingmaður þurfi að segja sig frá málum þrátt fyrir að upplýsa um eignarhald viðkomandi. Hann lýsti yfir óbeit sinni á Framsóknarflokknum í þættinum. 

Að sögn Vilhjálms er þetta óþægilegt mál sem eykur ekki traust hans á Framsóknarflokknum.

Frosti Sigurjónsson, þingmanni Framsóknarflokksins, var ekki skemmt yfir ummælum Vilhjálms um Framsóknarflokkinn en að sögn Vilhjálms nær óbeit hans á flokknum allt aftur til þess er hann var átta ára gamall og fór að kynna sér stjórnmál.

Í þættinum var Borgunarmálið og bankaráð Landsbankans einnig til umræðu og framtíðaruppbygging Landspítalans en gestir í þættinum voru auk Vilhjálms og Frosta þau Svandís Svavarsdóttir þingmaður VG og Óttarr Proppé þingmaður Bjartrar framtíðar. 

Þar var meðal rætt um afstöðu Sigmundar Davíðs og ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Frosti segist sammála því að betra sé að reisa spítalann annars staðar en við Hringbraut og hann sé sannfærður um að það komi ekki til með að tefja framkvæmdir við bygginguna. Húsakostur við Hringbraut sé ekki boðlegur. 

Óttarr segist sammála um að ekki megi verða tafir á byggingu spítalans og að allir séu sammála um að stofnanir heilbrigðiskerfisins séu að grotna niður. Verið sé að lækna fólk í mygluðum byggingum út um allt. Hann segir hins vegar mikinn ábyrgðarhlut hjá ráðherra að koma með inngrip sitt núna. Þetta sé vinna sem hafi staðið yfir í tíu ár og ef það eigi að fara að flytja framkvæmdina muni það tefja framkvæmdina um örugglega tíu ár.

Svandís segir þetta skýrasta dæmið um ástandið í stjórnmálum á Íslandi. Þeir sem best þekki til hafi ítrekað komist að þeirri niðurstöðu að Hringbraut henti best. Síðan komi forsætisráðherra með sitt inngrip og fari að tjá sig um mögulega aðra staðsetningu. Þegar svona komi upp þá sé stemmingin sú í þingsal að þetta sé enn ein dellan úr forsætisráðherra. Þetta er ekki bara þetta mál heldur sé það hvert málið á fætur öðru sem forsætisráðherra heldur ekki utan um og standi ekki með ríkisstjórn sinni. Hér ríki fullkomið forystuleysi.

Vilhjálmur segir að það sé svo að forsætisráðherra búi ekki við tjáningarfrelsi heldur sé hann fundarstjóri í ríkisstjórninni. Tjáning ráðherra í öðrum málaflokkum en sínum sé býsna hættuleg. Það eigi að ráða slík mál til lykta inni á ríkisstjórnarfundum áður en farið er að tala um þá út í bæ af ráðherrum.

Enginn dregur í efa að málið sé á borði heilbrigðisráðherra

Þingmenn hafi meira tjáningarfrelsi en ráðherrar, segir Vilhjálmur. Frosti segir samstarf ríkisstjórnarflokkanna mjög gott og að hann hafi sjálfur aldrei upplifað það að tjáningarfrelsi hans sé skert á nokkurn hátt. Frosti segir að það sé gott hjá Sigmundi Davíð að tjá sig opinberlega. Það sé miklu betra heldur en þegar menn sópi hlutum undir teppi. 

Frosti segir að enginn dragi það í efa að málefni Landspítalans séu á borði Kristjáns Þórs Júlíussonar heilbrigðisráðherra en það geri það ekki að verkum að aðrir megi ekki tjá skoðanir sínar.

Óttarr segir að það sé óþægilegt að horfa upp á það í ríkisstjórninni að í minni málum standi menn saman en í lykilmálum gangi það illa. Í málum eins og búvörusamningum, sjávarútvegsmálum, fæðingarorlofsmálum og fleiru. Hann segist hafa áhyggjur af því og hann hræðist að ríkisstjórnin sé ekki fær um að standa sig í stórum málum.

Svandís segir að það sé ekki gott fyrir þjóðina að horfa upp á að innan ríkisstjórnarflokkanna sé hver hendin upp á móti annarri.

Svandís Svavarsdóttir
Svandís Svavarsdóttir Ljósmynd Bragi
Frosti Sigurjónsson
Frosti Sigurjónsson mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir
Óttarr Proppé formaður Bjartrar framtíðar
Óttarr Proppé formaður Bjartrar framtíðar mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert