Dómur kveðinn upp á miðvikudag

Annþór Karlsson (fremri) og Börkur Birgisson (aftari) við aðalmeðferð málsins …
Annþór Karlsson (fremri) og Börkur Birgisson (aftari) við aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Suðurlands í janúar. mbl.is

Rétt tæpum fjórum árum eftir að Sigurður Hólm Sigurðsson lést í fangelsinu Litla-Hrauni er dómur yfir Annþóri Karlssyni og Berki Birgissyni væntanlegur á miðvikudag. Saksóknari hefur farið fram á tólf ára fangelsi yfir þeim en þeir eru sakaðir um að hafa valdið áverka sem dró Sigurð til dauða.

Sigurður lést í fangaklefa sínum 17. maí árið 2012 og eru Annþór og Börkur sakaðir um að hafa í sameiningu veitt honum högg eða spark sem olli rofi á milta hans. Innvortis blæðing af völdum þess er sögð hafa verið banamein fangans. Verjendur sakborninganna halda því fram að áralöng fíkniefnaneysla Sigurðar hafi orðið honum að aldurtila.

Þegar dómurinn yfir þeim verður kveðinn upp á miðvikudag verða hátt í átta vikur liðnar frá því að aðalmeðferð málsins lauk. Endurflytja þarf mál falli dómur ekki áður en átta vikur eru liðnar frá lokum aðalmeðferðar. Þessi langi umþóttunartími dómarans og tveggja sérfróðra meðdómenda er í samræmi við málareksturinn sem hefur dregist mjög á langinn.

Tekist á um sérfræðinga og málsgögn

Ákæra var fyrst gefin út á hendur Annþóri og Berki í júní árið 2013 og var þá rúmt ár liðið frá dauða Sigurðar sem var 49 ára þegar hann lést. Þeir eru ákærðir fyrir stófellda líkamsárás. Verjendur og saksóknari tókust í kjölfarið á um ýmis gögn málsins og hvort kalla ætti til erlenda sérfræðinga til að leggja mat á matsgerðir réttarmeinafræðings og íslenskra sálfræðinga sem gerðu atferlisskýrslu út frá myndbandsupptöku af Annþóri og Berki sem sýnir þá ræða við Sigurð rétt áður en hann lést.

Saksóknari setti sig upp á móti vali verjenda á sérfræðingum og var tekist á um það fyrir dómnum. Í maí árið 2014 felldi Hæstiréttur úr gildi úrskurð Héraðsdóms Suðurlands þar sem fallist var á kröfu verjenda um að dómskveða tvo erlenda sérfræðinga. Átaldi hann þann drátt sem hefði orðið á dómskvaðningu sérfræðinganna.

Engu að síður voru þessir yfirmatsmenn ekki dómskvaddir fyrr en í byrjun síðasta árs. Þá tók við bið eftir skýrslum þeirra. Aðalmeðferðin átti loks að hefjast í október en var frestað þar sem erfitt reyndist að fá erlendu vitnin í málinu til landsins á sama tíma. Hún hófst svo 28. janúar og lauk 31. janúar.

Óháð niðurstöðu Héraðsdóms Suðurlands á miðvikudag munu Annþór og Börkur áfram sitja í fangelsi. Þeir afplána nú sex og sjö ára fangelsisdóma sem þeir hlutu fyrir sérstaklega hættulegar líkamsárásir, ólögmæta nauðung, frelsissviptingu og tilraunir til fjárkúgunar í desember árið 2012 og voru staðfesti af Hæstarétti í október 2013.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert