Hæstiréttur hefur gert karlmanni sem grunaður er um mansal í Vík til að sæta nálgunarbanni í fimm mánuði. Getur hann á þeim tíma ekki komi að, verið nálægt, heimsótt eða sett sig í samband við eiginkonu sína, en hún er meðal þeirra sem munu bera vitni í dómsmálum gegn honum, bæði er varða meint ofbeldi gegn eiginkonunni sjálfri og í mansalsmálinu þar sem tveimur systrum var haldið föngnum á saumastofu í húsi mannsins.
Hæstiréttur staðfesti með þessu niðurstöðu héraðsdóms að öðru leyti en að í héraðsdómi hafði lengt nálgunarbannsins verið 6 mánuðir.
Í úrskurði héraðsdóms frá 14. mars kemur fram að málið hafi hafist 31. október á síðasta ári þegar eiginkona mannsins óskaði aðstoðar lögreglu vegna ofbeldis sem hún kvaðst hafa orðið fyrir af hálfu mannsins. Neitaði maðurinn sök, en lögreglustjóri tók ákvörðun um að vísa manninum af heimili þeirra beggja og sæta nálgunarbanni í þrjár vikur.
Nokkrum dögum síðar hafi konan óskað eftir niðurfellingu á ákvörðuninni þar sem hún vildi láta reyna á hjónabandið að nýju. Hinn 30. nóvember hafi ákæra í málinu verið gefin út og manninum gefin að sök líkamsárás. Konan nýtti sér rétt sinn til að gefa ekki skýrslu við aðalmeðferð, en stuttu síðar hafði hún samband við réttargæslumann sinn og var í kjölfarið óskað eftir aðstoð lögreglu vegna ótta hennar við manninn sem hafði brugðist reiður við eftir aðalmeðferðina.
Var því tekin ákvörðun á ný um brottvísun mannsins af heimili þeirra og nálgunarbann. Sú ákvörðun var staðfest í héraði og Hæstarétti.
Hinn 18. febrúar var svo gerð húsleit á heimili þeirra vegna gruns um mansal og fundust konurnar tvær þá. Fallist var á gæsluvarðhald yfir manninum sem var staðfest.
Kemur fram í úrskurði héraðsdóms að lögreglustjórinn á Suðurlandi hafi rökstuddan grun um að maðurinn hafi ítrekað beitt konuna ofbeldi og ólögmætri nauðung og hótunum. Hún hafi nú loks öðlast kjark til að gefa skýrslu við aðalmeðferð í málinu gegn honum og sé sérstök ástæða til að ætla að kærði muni beita hana áfram og enn frekari ólögmætri nauðung og hótunum. Tekur dómurinn undir þetta mat lögreglunnar og að kærði sé líklegur til að reyna að hafa áhrif á afstöðu konunnar.