Rannsóknir á lögreglumönnum enn í gangi

Lögreglustöðin Hverfisgötu
Lögreglustöðin Hverfisgötu mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Rannsóknir í málum lögreglumannanna tveggja sem störfuðu hjá fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eru enn í gangi hjá héraðssaksóknara og ríkissaksóknara. Enn hefur engin ákvörðun verið tekin um framhald málanna, en málið sem ríkissaksóknari er með til skoðunar er þó á seinni stigum.

Fyrri lögreglumaðurinn var settur í gæsluvarðhald milli jóla og nýárs, en hann er grunaður um óeðlileg samskipti við brotamenn með því að hafa lekið upplýsingum og jafnvel þegið greiðslur fyrir. Barst saksóknara í hendur upptaka af þessum óeðlilegu samskiptum mannsins við brotamann. Meint brot varða eins til sex ára fangelsi.

Var maðurinn leystur frá störfum um miðjan janúar mánuð. Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, segir í samtali við mbl.is að málið sé á seinni stigum rannsóknar. Auk lögreglumannsins var annar maður um fertugt settur í gæsluvarðhald vegna málsins.

Í seinna málinu var mál lögreglumannsins tekið til rannsóknar eftir áramót, en hann var einnig starfsmaður fíkniefnadeildarinnar. Þar sem rannsóknir á störfum lögreglunnar fluttust um áramót frá ríkissaksóknara til embættis héraðssaksóknara er þetta mál til rannsóknar þar.

Ólafur Hauksson, héraðssaksóknari, segir málið enn í rannsókn og að engin ákvörðun hafi verið tekin um framhald þess. Eins og í fyrra málinu var lögreglumaðurinn leystur frá störfum í stundarsakir, en hann hafði áður verið fluttur til í starfi innan lögreglunnar vegna ásak­ana um hvernig sam­skipt­um hans væri háttað við brota­menn. Er hann meðal annars talinn hafa varað brotamenn við húsleitum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert