Enskur barnataugalæknir, dr. Waney Squier, sem hefur veitt sérfræðiálit í fjölda dómsmála sem varða svonefndan barnahristing (e. shaken baby syndrome) hefur verið sviptur lækningaleyfi. Squier kom meðal annars fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í slíku máli árið 2014. Eftirlitsnefnd komst að þeirri niðurstöðu að Squier hafi afvegaleitt dómstóla með framburði sínum.
Skoðanir Squier stangast á við meirihluta sérfræðinga sem telja að bólgur í heila, blæðingar á milli höfuðkúpu og heila og blæðingar á sjónhimnu séu merki um áverka í börnum. Slíkt hefur verið nefnt barnahristingur á íslensku. Squier er á öndverðum meiði og hefur verið kvödd til sem sérfræðingur í fjölda mála þar sem sakborningar eru sakaðir um að hafa valdið dauða ungra barna með því að hrista þau. Þar hefur hún borið vitni um að fyrrnefndu einkennin séu ekki merki um áverka.
Opinber eftirlitsnefnd með störfum lækna á Englandi hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að Squier hafi ekki gefið hlutlægan og óvilhallan framburð í sex dómsmálum af þessu tagi. Framferði hennar samræmist ekki áframhaldandi störfum hennar sem læknis og svipti nefndin hana lækningaleyfi. Hún hefur starfað við John Radcliffe-sjúkrahúsið í Oxford sem ráðgjafi í hlutastarfi að því er segir á vefsíðu þess.
Nefndin segir ennfremur að Squier hafi sett fram kenningar sem ekki verið nægilega vel ígrundaðar, hún hafi borið vitni um málefni sem voru utan sérsviðs hennar og vitnað rangt til rannsókna og heimilda til að láta svo virðast sem þær styddu framburð hennar þó að þær gerðu það í raun ekki.
Með þessum hætti hafi framburður hennar leitt til tilefnislausra áfrýjana og gefið foreldrum barna falskar vonir.
„Vísvitandi misvísandi og óheiðarlegur framburður þinn fyrir dómi gat mögulega afvegaleitt framgang réttvísinnar,“ segir í niðurstöðu eftirlitsnefndarinnar.
Árið 2014 kom Squier fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur og gaf skýrslu í tengslum við mögulega endurupptöku máls Sigurðar Guðmundssonar sem var dæmdur fyrir að hafa valdið dauða níu mánaða gamals barns á daggæslu í Kópavogi árið 2001.
Þar hélt Squier því fram að aðrir þættir hafi getað skýrt dauða drengsins og frekari rannsóknir hefði þurft að gera til að skera úr um dánarorsök hans.
Endurupptökunefnd samþykkti að taka mál Sigurðar upp aftur í fyrra.
Frétt The Telegraph af sviptingu lækningaleyfis Waney Squier