Rætt hefur verið um það í röðum þingmanna stjórnarandstöðunnar hvort lýsa eigi yfir vantrausti á Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra í kjölfar umræðu um erlent félag eiginkonu hans, Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur, á Bresku jómfrúareyjum.
Fram kom á fréttavef Ríkisútvarpsins í gær að möguleg vantrauststillaga hafi verið rædd innan allra stjórnarandstöðuflokkanna en þeir hafi hins vegar ekki rætt saman formlega um sameiginlega tillögu. Þeir vilji hins vegar að forsætisráðherra svari ýmsum spurningum sem ekki hafi verið svarað í þinginu eftir páskafrí.
Haft er eftir Helga Hrafni Gunnarssyni, þingmanni Pírata, að óhugsandi sé að Sigmundur Davíð sitji áfram á stóli forsætisráðherra í ljósi þeirra upplýsinga sem fram hafi komið. Segir hann málið risavaxið og ekki snúast um eiginkonu ráðherrans heldur hann sjálfan og hagsmuni hans.