Annþór og Börkur sýknaðir

Fréttamenn ræða við verjendur Annþórs og Barkar eftir að dómur …
Fréttamenn ræða við verjendur Annþórs og Barkar eftir að dómur var kveðinn upp. mbl.is/Sigmundur Sigurgeirsson

Fjölskipaður Héraðsdómur Suðurlands sýknaði í morgun Annþór Kristján Karlsson og Börk Birgisson af öllu kröfum ákæruvaldsins en þeir voru sakaðir um að hafa valdið dauða Sigurðar Hólm Sigurðssonar, samfanga þeirra á Litla-Hrauni, fyrir fjórum árum. Saksóknari hafði farið fram á tólf ára fangelsi yfir þeim. Hvorugur þeirra var viðstaddur dómsuppkvaðninguna.

Tvímenningarnir voru ákærðir fyrir að hafa valdið dauða Sigurðar í fangaklefa hans á Litla-Hrauni 17. maí árið 2012. Þeir hafi í sameiningu veist að honum og veitt honum högg eða spark sem hafi valdið því að rof kom á milta hans. Innvortis blæðing hafi dregið hann til dauða. Annþór og Börkur hafa alla tíð neitað sök. 

Verjendur Annþórs og Barkar héldu því fram að það hafi verið mikil fíkniefnaneysla Sigurðar sem dró hann til dauða í fangelsinu. Rofið á miltanu hafi komið til við endurlífgunartilraunir sem voru gerðar á honum í fangaklefanum. Engin vitni voru að meintri árás Annþórs og Barkar á Sigurð. 

Ákæran var gefin út í júní árið 2013, rúmu ári eftir dauða Sigurðar. Aðalmeðferð málsins fór hins vegar ekki fram fyrr en í lok janúar á þessu ári. Verjendur sakborninganna og saksóknari tókust á um hvort kveða ætti til erlenda sérfræðinga til að leggja mat á niðurstöður réttarmeinafræðings og tveggja íslenskra sálfræðinga sem gerðu atferlisgreiningu á Annþóri og Berki sem byggðist á myndbandsupptöku af samskiptum þeirra við Sigurð skömmu fyrir dauða hans. Málareksturinn dróst á meðan tekist var á um það og svo beðið eftir skýrslum erlendu sérfræðinganna. Aðalmeðferð málsins lauk 31. janúar.

Mikill vafi leikur á sekt Annþórs og Barkar

Í niðurstöðu héraðsdóms segir, að miklar líkur bendi til þess að Annþór og Börkur séu þeir einu sem til greina komi sem gerendur í málinu en ekki er loku fyrir það skotið að aðrir en þeir hafi haft möguleika á því að veita Sigurði þá áverka sem drógu hann til dauða.

Þá sé ekki heldur hægt að útiloka að fall í klefanum hafi orsakað áverkann.

„Að mati dómsins leikur því það mikill vafi á sekt ákærðu að þessu leyti að ekki verður hjá því komist með vísan til 108. gr., sbr. 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að sýkna ákærðu af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu,“ segir í dómi héraðsdóms.

Allur sakarkostnaður, rúmar 30 milljónir kr., greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda Annþórs, 16.500.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, auk ferðakostnaðar lögmannsins, 705.000 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda Barkar, 12.500.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk ferðakostnaðar lögmannsins, 276.000 krónur.

Þá greiðist einnig úr ríkissjóði þóknun fyrri verjanda Barkar, 1.200.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti auk ferðakostnaðar lögmannsins, 69.090 krónur.

Fangaklefi á Litla Hrauni.
Fangaklefi á Litla Hrauni. mbl.is/Brynjar Gauti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert