Á laugardaginn kemur er ár liðið frá formlegri frelsun geirvörtunnar hér á landi undir merkjun #freethenipple. Þann dag hvöttu femínistafélög mennta- og háskóla landsins konur til að frelsa geirvörtuna á skólatíma og gríðarlegur fjöldi fólks deildi myndum af berum brjóstum sínum á samfélagsmiðlum til að mótmæla því tabúi sem geirvörtur kvenna eru í almennu rými.
Þá var einnig efnt til geirvörtusunds í Laugardalslaug og skipuleggjendur þess hafa ákveðið að endurtaka leikinn í ár.
„Fyrir nokkrum árum þótti ekkert tiltökumál að konur hyldu ekki brjóst sín í sundi, rétt eins og karlmenn. Hvers vegna eru því konur og stelpur reknar upp úr sundlaugum fyrir það í dag?“ er spurt á viðburðinum á Facebook.
„Hvers vegna eru þær sagðar ‘athyglissjúkar’, ‘táldragandi’ og margt verra? Hvers vegna ráða konur ekki yfir eigin líkama? Samfélagið hefur kennt okkur að kvenkynsbrjóst skulu hylja og að þau séu einugins ætluð þeim sem við sofum hjá. Og til þess að gefa börnum okkar að borða – svo lengi sem enginn sjái!“
Skipuleggjendur segja löngu tímabært að taka aftur höndum saman og berjast gegn klámvæðingu og óréttlæti. Með því að neita að hylja brjóst sín gengisfelli konur hefndarklám og taki vopnin úr höndum ódæðismanna.
„Munu þær sjá eftir þessu? Nei, að sjálfsögðu ekki því enginn getur notað eitthvað gegn þér sem þú gerðir af stolti og öryggi!“
Sundlaugarpartýið fer fram í Laugardalslaug frá 13 til 16 á laugardaginn kemur. Frekari upplýsingar má nálgast á Facebook.