Hefði aldrei átt að ákæra Annþór og Börk

Frá Héraðsdómi Suðurlands.
Frá Héraðsdómi Suðurlands. mbl.is

Verjendur Annþórs Karlssonar og Barkar Birgissonar voru hæstánægðir með sýknu þeirra af ákæru um að hafa valdið dauða samfanga þeirra á Litla-Hrauni. Annar þeirra segir að rannsókn málsins hafi verið afleit og aldrei hafi átt að gefa út ákæru í því.

Saksóknari fór fram á tólf ára fangelsi yfir Annþóri og Berki fyrir að hafa valdið dauða Sigurðar Hólm Sigurðssonar á Litla-Hrauni árið 2012. Héraðsdómur Suðurlands sýknaði þá hins vegar af öllum kröfum ákæruvaldsins í dag.

„Ég átti ekki von á neinu öðru. Þessi niðurstaða gat ekki orðið öðruvísi. Rannsókn málsins var mjög afleit og öll gögn bentu til þess að það gæti ekki komið neitt annað til greina en sýkna eins og við erum að upplifa núna,“ sagði Sveinn Guðmundsson, verjandi Barkar eftir að niðurstaðan var ljós.

Fullyrti hann að aldrei hefði átt að gefa út ákæru í málinu.

Hólmgeir Elías Flosason, verjandi Annþórs. voru á svipaða lund. Sagði hann þetta einu niðurstöðuna sem hefði komið til greina þar sem gengið væri út frá því að ekki væri sakfellt nema að sönnunargögn lægju fyrir. Gagnrýndi hann hversu langan tíma meðferð málsins hefði tekið.

„Þetta er búið að taka alltof langan tíma og rannsóknin var eins og ég kom inn á í mínum málflutningi í molum frá upphafi. Það sem var sérstaklega athugavert var að það var aldrei leitast við að komast að því hvað hefði raunverulega gerst heldur frekar að reyna að koma sök á minn skjólstæðing,“ sagði Hólmgeir Elías.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka