Heimilislausum nema synjað um húsnæði á stúdentagörðum

Stórtjón varð í eldsvoðanum við Grettisgötu og íbúar misstu aleiguna.
Stórtjón varð í eldsvoðanum við Grettisgötu og íbúar misstu aleiguna. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Rós Kristjánsdóttir, ein þeirra þriggja sem missti aleiguna í brunanum á Grettisgötu fyrr í mánuðinum, fékk synjun frá úrskurðarnefnd Félagsstofnunar stúdenta. Rós hafði beðið um að komast á forgang á biðlista eftir íbúð í Stúdentagörðum þar sem hún væri heimilislaus.

„Mér fannst þetta svar svo kalt og leiðinlegt að það fauk í mig,“ segir Rós, sem deildi í Facebook færslu staðlaðri synjun sem henni barst. „Ég var ekki endilega að búast við að fá neitt strax, því ég veit að það þurfa flestir að bíða.“

Hún hefði þó vilja fá ítarlegri svör, eftir að hafa lagt töluverða vinnu í bréf sem Félagsstofnun stúdenta hafði sagt henni að senda inn ásamt umsókninni, til að útskýra stöðu sína. „Ég útskýri þar fyrir þeim að heimili mitt hafi brunnið til kaldra kola, ég sé heimilislaus og hvort  að það sé möguleiki að komast á forgang á biðlista.“

Rós segist búin að vera á miklu flakki frá því brann. „Ég held að við séum búin að gista á einum sjö mismunandi stöðum.“  Hún er að ljúka BA námi í mannfræði í vor og stefnir á  MA nám næsta haust. „Ég get hins vegar ekki sótt um húsnæði á stúdentagörðum vegna MA námsins fyrr en að ég hef lokið BA gráðunni.“

Hún kveðst ekki hvað síst vera ósátt við svör úthlutunarnefndar þar sem hún viti um marga sem fara í kringum kerfið, m.a. með því að flytja heimilisfang sitt aftur út á land til að komast framar á biðlista.

„Mér finnst skrýtið að manneskja sem er utan af landi fái frekar úthlutað íbúð heldur en einhver sem er heimilislaus. Ég veit að það er fullt af fólki að svindla á kerfinu og kerfið er heldur ekki að standa við bakið á okkur.“

Rós Kristjánsdóttir er búin að vera á miklu flakki frá …
Rós Kristjánsdóttir er búin að vera á miklu flakki frá því að hún missti heimili sitt.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert