Hljómsveitin Kaleo úr Mosfellsbæ hefur búið í Austin í Bandaríkjunum í heilt ár og gengur vel að koma sér á framfæri vestra. Strákarnir hafa nýlokið mánaðarlöngu ferðalagi um Bandaríkin þar sem uppselt var á alla tónleika sveitarinnar. Tæp þrjú ár eru síðan þeir slógu í gegn á Íslandi með ábreiðu af laginu Vor í Vaglaskógi. Eftir það tók við rokk og ról og þrotlaus vinna. Fyrir ári síðan héldu þeir til Texas á vit ævintýranna og eru nú á góðri leið með að meika það vestanhafs.
„Þetta hefur gengið vonum framar. Við erum búnir að leggja hart að okkur en það er heldur betur að skila sér,“ segir Jökull Júlíusson söngvari hljómsveitarinnar aðspurður um fyrsta árið í Bandaríkjunum en hljómsveitin hefur lagt á sig mikla vinnu við að koma sér á framfæri. „Við erum búnir að spila nánast í hverju einasta fylki Bandaríkjanna og þetta fyrsta ár hefur vægast sagt verið viðburðarríkt. „Ætli við höfum ekki eytt hátt í 300 dögum á ferðalagi fyrsta árið. Það eru helvíti margar bensínstöðvar. Við búum eiginlega bara í ferðatösku og eyðum miklum tíma í rútunni.”
Hljómsveitin stefnir að því að gefa út plötu í sumar sem verður þeirra fyrsta í Bandaríkjunum. Nú þegar hafa einungis fjögur lög verið gefin út með hljómsveitinni vestanhafs og ríkir því mikil eftirvænting eftir nýju efni. Þá eru strákarnir væntanlegir til Íslands í sumar bæði til að taka upp tónlistarmyndbönd og halda tónleika.
Hljómsveitin kom á dögunum fram í þætti Conan O’Brien en hann er einn vinsælasti spjallþáttastjórnandi Bandaríkjanna. Eftir giggið var haldið í eftirpartý í Hollywood þar sem spilað var í fámennu einkasamkvæmi. Þar voru mættir Justin Timberlake, Aaron Paul, Chris Martin, Charlize Theron og fleiri. „Þetta var mjög fínt en á sama tíma mjög súrealískt, segir Jökull.
Blaðamaður Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins sótti þá heim í sumarblíðuna í Texas og er fjallað nánar um heimsóknina í blaði helgarinnar.