Að kvöldi þriðjudagsins 24. mars í fyrra birti Adda Þóreyjardóttir Smáradóttir, þá sextán ára framhaldsskólanemandi, mynd af sér berbrjósta á Twitter. Myndin fékk sterk viðbrögð og tók hún myndina út eftir aðeins nokkrar mínútur. Þrátt fyrir það hafði myndin gífurleg áhrif og varð hún kveikjan að Free The Nipple byltingunni sem tröllreið íslensku samfélagi.
„Myndina birti ég í rauninni bara í smá kasti úr pirringi yfir þessu ójafnrétti, að konur þurfi að hylja brjóst sín. Ég ákveð síðan að eyða henni og fer síðan að sofa. Daginn eftir voru komin slæm ummæli um myndina sem endaði með því að fólk varði mig og fór sjálft að birta myndir,“ segir Adda í samtali við mbl.is.
Adda segir daginn eftir, þ.e. 25. mars, sér afskaplega minnistæðan og heldur hún að sá dagur hafi haft mest áhrif á líf hennar. „Ég mætti í skólann með keng í maganum yfir því sem ég hafði „asnast“ til að gera kvöldið áður en þar sem þennan dag voru fjögur ár síðan mamma mín lést var það þó mér einnig ofarlega í huga og reyndi ég svolítið að beina augunum þangað,“ segir Adda.
Um hádegi var sama dag var þó fátt annað sem komst að hjá henni heldur en rifrildi á Twitter vegna myndarinnar. „Eftir það fór ég að fylgjast með hvernig byltingin þróaðist yfir daginn þar sem stelpur deildu af sér brjóstamyndum og tóku valdið á eigin líkama til baka.“
Allt náði svo hápunkti þann 26. mars þegar Free The Nipple dagurinn var haldinn í framhaldsskólum landsins auk þess sem fjöldinn allur hélt áfram að deila myndum af sér.
„Ég eyddi þeim degi einungis í útvarp og sjónvarpsviðtöl og er hann eins og flestir dagarnir þarna í kring mér mjög minnisstæðir. Þetta heppnaðist allt rosalega vel miðað við það að við engu var að búast þar sem byltingin var ekki plönuð,“ segir Adda.
Hún telur að byltingin hafi haft gífurleg áhrif og fær hún reglulega upp að sér fólk sem segir henni hversu mikið byltingin gerði fyrir það. „Hún sýndi bæði stelpum og strákum hversu rosalega mismunandi við erum öll og hinn staðlaði bíómynda líkami er sjaldséður í raunveruleikanum. Hún opnaði augu margra fyrir kyngervingunni sem á sér stað í heiminum og hversu mikil áhrif hún hefur á okkur,“ segir Adda og bætir við að byltingin hafi gert það að verkum að fólk fór að skilja að kyngerving kvenna, hrelliklám og fleira eru einnig vandamál sem þörf er að yfirstíga áður en við náum jafnrétti.
„Mest kenndi hún samt sjálfri mér að ég á mig sjálf, og ég ræð hvað ég geri minn líkama og það á enginn að fá að stjórna því eða hafa áhrif á það. Undanfarnir tólf mánuðir hafa verið svo viðburðaríkir og held ég að vitundavakningin hafi aldrei verið jafn mikil, og ekki bara á íslandi. Við erum farin að ná tökum á hvernig hægt er að nota internetið í svona hluti, m.a. aktívisma og þarna fá allir rödd,“ segir Adda.
Aðspurð hvaða áhrif það hafði á hana persónulega að birta mynd af sér berbrjósta segir Adda að hún hafi með myndinni lært að meta sjálfa sig upp á nýtt og byggt upp gott sjálfstraust sem var ekki endilega til staðar fyrir.
„Þessi viðburður og þessi bylting kenndi mér miklu meira en mér hefði nokkurn tíman dottið í hug og hefur gefið mér tækifæri sem ég hélt að 16/17 ára íslenskur unglingur gæti ekki fengið og hefur lærdómurinn verið ómetanlegur,“ segir Adda.
Hún segir að umræðan um jafnrétti kynjanna hafi klárlega breyst á undanförnu ári.
„Það algjörlega hætt að vera sjaldgæft að vera femínisti og er það núna hið sjálfsagðasta mál. Það er bara talið flott og upplifi ég frekar að það sé litið niður á fólk fyrir að vera á móti þessum málum. Það gerir rosalega mikið fyrir baráttuna þegar fólk sem ungir krakkar og fullorðið fólk lítur upp til er farið að yfirlýsa sig sem femínista og taka þátt í baráttunni og umræðunni,“ segir Adda og bætir við að henni finnist umræðan vera farin að snúast um aðra og fleiri hluti en áður.
„Fyrir nokkrum árum fannst mér umræðan aðallega snúast um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði en hefur núna bæst við rosalega hvernig það spilar inn í jafnréttisbaráttu kyngerving á líkömum, kynferðisofbeldi, klámvæðingin og það sem er í kringum okkur í alheimssamfélaginu alltaf.“
Adda segist erfitt að segja hversu langt Íslendingar eru komnir í jafnréttisbaráttunni en segir við komin lengra en áður. „Smátt og smátt færumst við nær en það er nóg eftir og ég veit að við munum halda áfram að berjast fyrir því sem þörf er á. Við erum lagalega séð komin svo langt að það virðist sem að fókusinn sé að beinast annað. Það er mikilvægt að halda áfram umræðunni og fræða fólk um hvernig kynjajafnrétti er ekki náð og hallar á bæði kyn, á mismunandi sviðum og mikilvægt er að muna það er ekki nóg að einblína á þessa baráttu innan íslands,“ segir Adda og nefnir skort á jafnrétti kynjanna í öðrum löndum.
„Það er mikilvægt fyrir Íslendinga að vera upplýstir um ástandið í heiminum sem dæmi í löndum þar sem barnabrúðkaup eru hið eðlilegasta mál og þótt það virðist vera fjarlægur vandi fyrir okkur þá kemur það öllum heiminum við að fimmtán milljónir stelpna undir 18 ára eru giftar á hverju ári. Við verðum að halda áfram með baráttuna, ekki bara fyrir okkur heldur svo öll önnur lönd sjái að það er mögulegt að komast svona langt og við munum ekki gefast upp.“
Framganga Öddu í frelsun geirvörtunnar í fyrra vakti mikla athylgi, ekki síst út fyrir landsteinana en hún var verðlaunuð á ungmennaráðstefnu á síðasta ári í Taívan fyrir jafnréttisbaráttu sína. Adda ræddi um ráðstefnuna við blaðamann Morgunblaðsins í október.
Í tilefni af ársafmæli Free The Nipple deginum hefur mbl.is rætt við fulltrúa femínistafélaga innan fjögurra framhaldsskóla í Reykjavík. Fleiri viðtöl birtast á næstu dögum.