Æfa börn of mikið?

Viðar Halldórsson félagsfræðingur
Viðar Halldórsson félagsfræðingur mbl.is/Árni Sæberg

Greina má merki um aukinn metnað í íþróttastarfi barna. Æfingatímum fjölgar og atvinnumennska er útgangspunkturinn. Viðar Halldórsson er ekki viss um að þetta sé æskileg þróun.

Það er alkunna að íþróttastarf og annað skipulagt tómstundastarf getur haft margvísleg jákvæð áhrif á börn og unglinga. Hafa rannsóknir þannig sýnt fram á jákvæð áhrif á námsárangur, andlega líðan og félagslega virkni sem og minni líkur á reykingum og drykkju ef börn fá að stunda eitthvað uppbyggilegt utan skólatíma.

En málið er ekki svona einfalt, að sögn Viðars Halldórssonar. Viðar er lektor í félagsfræði við Háskóla Íslands og hefur gert ítarlegar rannsóknir á íþróttastarfi barna. „Það eitt að stunda íþróttir hefur lítið að segja um þau jákvæðu áhrif sem sóst er eftir og skiptir máli í hvers konar félagslegu umhverfi íþróttastarfið fer fram. Börn og unglingar sem stunda íþróttir utan íþróttafélaga, t.d. með því að hitta félagana reglulega til að spila körfubolta, virðast ekki njóta sömu jákvæðu áhrifa á lífsstíl og viðhorf og þau sem taka þátt í skiplögðu íþróttastarfi.“

Viðar segir líklegustu skýringuna á þessu að í gegnum starf íþróttafélaganna fái börnin aga og aðhald og smitist af þeim gildum og hefðum sem skapast hafa hjá félögunum í gegnum tíðina. „Þau eru undir leiðsögn fullorðins þjálfara, sem oft er með töluverða sérþekkingu og menntun á sínu sviði, og að auki eru foreldrarnir alla jafna virkir þátttakendur í starfinu.“

Viðar segir að íþróttafélögin þurfi að huga að því að börn og ungmenni fái örugglega að stunda sínar íþróttir á sínum forsendum. Þeir sem vilja geta þá æft af meiri alvöru, en hinir sem vilja ekki sinna íþróttinni af sama kappi heldur fyrst og fremst spila ánægjunnar vegna geti fundið sér einhvern farveg, í stað þess að detta út úr íþróttastarfinu eins og vill gerast þegar menntaskólaárin nálgast og æfingar verða mun tíðari.

Á móti bendir Viðar á að þó það virðist margt varasamt við að börn æfi íþróttir af of mikilli hörku þá geti það líka gerst að jákvæðu áhrifin af íþróttastarfinu minnki eða hverfi ef íþróttunum er ekki sinnt af nægilegri kostgæfni.

„Hið jákvæða uppeldislega gildi íþrótta ungmenna í 8. og 10. bekk virðist til dæmis meira hjá þeim sem æfa fjórum sinnum í viku eða oftar, en hjá þeim sem æfa einu sinni til þrisvar í viku. Má álykta að þessi skuldbinding að taka mjög virkan þátt í skipulögðu íþróttastarfi hafi mikið að segja varðandi gildi íþrótta fyrir iðkendur á þessum aldri.“

mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson
Mynd úr safni af handboltamóti
Mynd úr safni af handboltamóti mbl.is/Golli
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert