„Við erum á lokasprettinum og stefnum að því að ljúka rannsókninni fljótlega, jafnvel í næstu viku,“ segir Þorgrímur Óli Sigurðsson aðstoðaryfirlögregluþjónn á Suðurlandi í samtali við mbl.is aðspurður um gang rannsóknar á mansalsmáli í Vík í Mýrdal. Farbann yfir sakborningi í málinu rennur út á föstudaginn og að sögn Þorgríms á eftir að taka ákvörðun um hvort að það verði framlengt.
Maðurinn er grunaður um að hafa haldið fólki í vinnuþrælkun en hann er eigandi fyrirtækisins Vonta International. Málið komst upp þegar að lögregla fann tvær konur frá Sri Lanka í kjallara húss mannsins á Vík og hann var í kjölfarið handtekinn. Nú eru þó sex með stöðu brotaþola í málinu, konurnar tvær og fjórir útlendingar til viðbótar sem störfuðu hjá fyrirtækinu.
Að sögn Þorgríms verður málið sent til ákærusviðs þegar að rannsókn lögreglu lýkur og verður þar tekin ákvörðun um næstu skref. Eins og fyrr hefur komið fram hefur rannsókn málsins verið mjög viðamikil og á tímabili voru allir rannsóknarlögreglumenn lögreglunnar á Suðurlandi starfandi í málinu og hafa önnur mál þurft að sitja á hakanum vegna þess.
Nú hefur lögreglumönnum sem koma að rannsókninni verið fækkað og að sögn Þorgríms hafa hinir getað snúið sér aftur af þeim málum sem þeir voru með í rannsókn.
Hann segir að það séu mál af ýmsum toga, þá m.a. heimilisofbeldi, kynferðisofbeldi og fjármunabrot.