Segir aflandsfélagið vera ekkert leyndarmál

Vilhjálmur Þorsteinsson.
Vilhjálmur Þorsteinsson.

Vilhjálmur Þorsteinsson, gjaldkeri Samfylkingarinnar, greinir aðspurður frá því í umræðuþræði á Facebook að hann eigi félag í Lúxemborg en landið hefur gjarnan verið skilgreint sem skattaskjól.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sagði í gær við mbl.is að það samrýmdist ekki því að gegna trúnaðarstörfum fyrir Samfylkinguna og að tengjast félögum í skattaskjólum, enda hafi flokkurinn tekið afgerandi afstöðu gegn slíku.

Í umræðunni á Facebook þræðinum segir Vilhjálmur:

„Ég á félag í Lúxemborg, Jón, það er ekkert leyndarmál. Það er fullskattlagt félag sem greiðir 21,84% tekjuskatt. Skattar eru ekki ástæðan fyrir því að ég vil hafa félagið þar, heldur krónan, gjaldeyrishöftin og pólitísk og efnahagsleg áhætta á Íslandi. Ef við værum í ESB væri engin ástæða til að hafa félagið erlendis. Hlutir mínir í sprotafyrirtækjum hér innanlands eru hins vegar að langmestu leyti í íslensku félagi.“

Og fyrr í umræðunni segir hann:

„Lúxemborg ætti reyndar ekki að nefna í sömu andrá og Panama og Tortóla (Jómfrúareyjar) því landið er innan EES, hlutafélög þar eru skattlögð hærra en á Íslandi (21,84% tekjuskattur vs. 20%), og í gildi er tvísköttunarsamningur milli Íslands og Lúxemborgar.“

Samkvæmt þessu má telja að skattar af félagi Vilhjálms hafi verið greiddir í Lúxemborg (21,84%) en ekki hér á landi. 

Hlekk á umræðuna má finna hér 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert