Áhöfn þyrlunnar brást hárrétt við

TF-LÍF við bæinn Skarð á mánudag.
TF-LÍF við bæinn Skarð á mánudag. mbl.is/Óli Már Aronsson

Sindri Steingrímsson, flugrekstrarstjóri Landhelgisgæslunnar, segir að áhöfnin á þyrlu Landhelgisgæslunnar TF-LIF hafi tekið hárrétta ákvörðun þegar ákveðið var að nauðlenda þyrlunni síðastliðinn mánudag eftir að reykur kom upp í farþegarými hennar.

Betur fór en á horfðist í fyrstu þegar þyrlan sendi frá sér neyðarboð, en mótor sem knýr blásara fyrir loft í flugstjórnarklefa og farþegarými eyðilagðist með þeim afleiðingum að reykur kom upp í farþegarýminu. „Þyrlan er komin aftur í gagnið og það amar ekkert að henni,“ segir Sindri en Landhelgisgæslan átti til eitthvað af varahlutum svo þyrlan var stopp í tiltölulega stuttan tíma að sögn Sindra.

Frétt mbl.is: TF-LÍF er á leið til Reykjavíkur

„Við kunnum öllum bestu þakkir sem komu að viðbragði og aðstoð á meðan á þessu stóð; Isavia, lögreglu, björgunarsveitum og bændum í Þykkvabæ, svo einhverjir séu nefndir,“ segir Sindri og bætir við að það sé ómetanlegt að Landhelgisgæslan eigi hauk í horni ef svo ber undir að hún þurfi á aðstoð að halda í stað þess að vera sá sem aðstoðina veitir alla jafna.

Frétt mbl.is: Reykur í farþegarými þyrlunnar

„Það var fullt af fólki sem brást hratt við til þess að hjálpa okkur, auðvitað getum við lent í vandræðum eins og allir aðrir,“ segir Sindri. Viðgerð á þyrlunni lauk í gærkvöldi og flugprófun lauk í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert