Hvað er málið með geirvörtuna?

Af Facebook síðu Kim Kardashian

Reglur sem hamla notendum Facebook að birta myndir sem sýna geirvörtur kvenna hafa vakið mikla umræðu og athygli síðustu ár. Fyrst um sinn var það óheimilt á samfélagsmiðlinum að birta myndir af brjóstagjöf en því var breytt eftir mikil mótmæli árið 2014. Enn í dag er þó ekki hægt að birta myndir sem sýna geirvörtur kvenna, ekki einu sinni þegar notendur kjósa að deila myndum úr fæðingum barna sinna. En hvað er málið með geirvörtuna og af hverju er hún bönnuð?

1,59 milljarður manna notar samfélagsmiðilinn Facebook í hverjum mánuði og það gefur auga leið að þar þurfi að ríkja reglur um hvað má fara inn og hvað ekki. „Markmið okkar er að gefa fólki tækifæri til þess að deila og gera heiminn opnari og tengdari,“ segir í reglum samfélagsmiðilsins. „Samtölin sem eiga sér stað á Facebook endurspegla fjölbreytt samfélag rúmlega milljarðs manna.“

Banna hótanir, hatursorðræðu og geirvörtur kvenna

Lögð er áhersla á að fólki eigi að finnast það öruggt á Facebook og þar af leiðandi hafa verið settar ákveðnar reglur. Samkvæmt þeim er ýmislegt ekki leyft á samfélagsmiðlinum, þar á meðal hatursorðræða, efni sem stuðlar að kynferðislegu og líkamlegu ofbeldi og hótanir. En sá hluti reglnanna sem hefur eflaust vakið mesta athygli eru þær sem koma að birtingarmynd nektar á Facebook, og þá sérstaklega þegar að konur birta myndir þar sem sést í geirvörtur þeirra.

Í reglum Facebook segir að birting nektar á samfélagsmiðlinum sé takmörkuð þar sem einhverjir gætu verið viðkvæmir fyrir „þessháttar efni, sérstaklega vegna menningarlegs bakgrunns eða aldurs.“

Í reglunum segir að myndir sem sýni kynfæri eða nærmynd af óhuldum rasskinnum séu teknar út. „Við bönnum einnig sumar myndir af kvenbrjóstum ef þær sýna geirvörtu en við leyfum alltaf myndir af konum að gefa brjóst eða þær sem sýna ör eftir brjóstnám,“ segir í reglunum en þeirri klausu var ekki bætt við fyrr en í júní 2014.  

Þá eru myndir af málverkum, höggmyndum og öðrum listaverkum sem sýna nekt leyfðar.

AFP

Olíubornar rasskinnar fá að standa

Umræða um reglur Facebook þegar það kemur að birtingu kvenbrjósta og geirvartna hefur verið áberandi síðustu misseri, sérstaklega eftir Free The Nipple byltinguna sem varð hér á landi fyrir um ári síðan. Þá kom það mörgum stúlkum og konum spánskt fyrir sjónir að vera bókstaflega hent út af Facebook í ákveðinn tíma eftir að hafa birt myndir af geirvörtum sínum á meðan sömu reglur gilda ekki um geirvörtur karla.

Eru reglurnar taldar sýna það nokkuð vel hvernig geirvörtur og brjóst kvenna hafa verið gerðar að einhverju sem þær eru ekki heldur að einhverju dónalegu og bönnuðu sem eiga að særa blygðunarkennd fólks. Þó er í lagi að birta kynþokkafullar myndir af konum, svo lengi sem blessuð geirvartan sést ekki.

Raunveruleikastjarnan Kim Kardashian hefur oft verið nefnd sem dæmi um þennan tvískinnung. Í nóvember 2014 birti tímaritið Paper forsíðumynd af Kardashian þar sem hún situr fyrir nakin og olíuborin og snýr rasskinnunum að myndavélinni. Þar sem engin geirvarta sést á myndinni gat Kardashian birt myndina án vandræða á Facebook og stendur hún þar enn. Deilt hefur verið um hvort að þessi mynd særi ekki frekar blygðunarkennd fólks heldur en saklausar geirvörtur en myndin fær að standa, enda er ekki um að ræða nærmynd af rasskinnum stjörnunnar. Kardashian hefur birt fjölmargar kynæsandi myndir af sér í gegnum tíðina en þar sem hún hylur geirvörturnar fá þær að standa.

#BreakTheInternet

Posted by Kim Kardashian West on Tuesday, November 11, 2014

#liberated

Posted by Kim Kardashian West on Tuesday, March 8, 2016

Fæðingamynd hent út innan klukkustundar

Þrátt fyrir að Facebook stæri sig að því að leyfa myndir sem sýni brjóstagjöf eru myndir úr fæðingum, þar sem geirvarta sést, enn augljóslega bannaðar. Fyrr í mánuðinum birti bandarísk kona mynd sem tekin var við fæðingu barns hennar í lokuðum hóp sem heitir NYC Birth. Í hópnum er rætt um fæðingar, frjósemi og fleira sem tengist barneignum og eru meðlimir hans um 840 talsins. Myndin er vægast sagt áhrifamikil en á henni sést í eina geirvörtu og þar af leiðandi var konunni hent út af Facebook innan klukkustundar frá því að hún birti myndina.

Þess má geta að aðrir Facebook notendur þurfa að tilkynna myndir sem þeim finnst ekki við hæfi og er þeim sem birtu myndirnar áminntir eða hent út af samfélagsmiðlinum í ákveðinn tíma.

Í samtali við New York Magazine sögðust stjórnendur NYC Birth, Nora Painten og ljósmóðirin Kimm Sun, vona að Facebook breyti reglum sínum þegar það kemur að myndum sem sýni fæðingar.

Sagði Sun að það að taka niður myndina væri skilgreiningin á því hvernig grafið er undan konum. Með því að fjarlægja myndina væri verið að reyna að búa til skömm meðal kvenna fyrir að deila myndum af sér fæða barn.

„Þetta er ekki kynlíf. Þetta er ekki klám,“ bætti Painten við. „Vonandi munu mæður sem birta myndir úr fæðingum barna sinna skapa umræðu um þetta mál og hvetja aðra til þess að birta þessar gleðilegu og merkilegu myndir án þess að óttast við að vera skammaðar eða ritskoðaðar.“

Geirvörtur á Austurvelli tilkynntar

Þetta dæmi er aðeins eitt af þúsundum og virðist sem enginn komist framhjá reglum Facebook, ekki einu sinni fréttamiðlar. Þegar að Free The Nipple byltingin tröllreið öllu hér á landi fyrir ári síðan var Facebook síða mbl.is tilkynnt til Facebook vegna birtingar á geirvörum. Sama gerðist núna um helgina þegar að systursíða mbl.is Iceland Monitor, birti myndina hér að neðan með frétt miðilsins á Facebook. Í báðum tilvikum var hópi blaðamanna sem skrifa inn á Facebook síðurnar „hent út“ af samfélagsmiðlinum í ákveðinn tíma, allt að þrjá sólarhringa.

Þeir sem mbl.is hefur rætt við um Free The Nipple byltinguna síðustu misseri hafa verið sammála um mikilvægi hennar og áhrif. Er þó langtímamarkmiðið það að geirvartan verði afklámvædd og að það verið eðlilegt fyrir konur, rétt eins og karla, að vera berar að ofan á opinberum stöðum og á samfélagsmiðlum. Hvort að Facebook taki þátt í byltingunni eða ekki mun tíminn leiða í ljós.

Þessi mynd var tilkynnt til Facebook um helgina og nokkrum …
Þessi mynd var tilkynnt til Facebook um helgina og nokkrum blaðamönnum mbl.is "refsað" með því að vera hent út af samfélagsmiðlinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert