Tillaga um þingrof og kosningar

Samþykkt var á fundum þingflokka stjórnarandstöðuflokkanna sem fram fóru síðdegis í Alþingishúsinu að lögð verði fram þingsályktunartillaga um þingrof og nýjar kosningar þegar þing kemur saman í næstu viku að loknu páskaleyfi. Áður en þingflokkarnir funduðu fór fram sameiginlegur fundur formanna og þingflokksformanna stjórnarandstöðuflokkanna.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um það hvort tillaga um vantraust á ríkisstjórnina verður lögð fram í framhaldinu eða samhliða tillögunni um þingrof og kosningar en það verður skoðað nánar á næstunni að sögn Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar. Meðal annars er stefnt að því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis taki málið til skoðunar.

Árni segir þjóðina hafa verið leynda upplýsingum um aðkomu núverandi ráðherra að félögum í skattaskjóli í aðdraganda síðustu kosninga og eðlilegt sé að hún fái að koma að málum á nýjan leik. Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, segir kosningar ekki henta neinum stjórnmálaflokki en málið snúist ekki um það heldur hagsmuni þjóðarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert