„Ákvörðun ætti að liggja fyrir á morgun,“ segir Þorgímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Suðurlandi í samtali við mbl.is, aðspurður um hvort farbann yfir sakborningi í mansalsmáli í Vík í Mýrdal verði framlengt. Farbannið rennur út á morgun, föstudag.
Maðurinn er grunaður um að hafa haldið fólki í vinnuþrælkun en hann er eigandi fyrirtækisins Vonta International. Málið komst upp þegar að lögregla fann tvær konur frá Sri Lanka í kjallara húss mannsins á Vík og hann var í kjölfarið handtekinn. Nú eru þó sex með stöðu brotaþola í málinu, konurnar tvær og fjórir útlendingar til viðbótar sem störfuðu hjá fyrirtækinu.
Rannsókn málsins gengur vel, að sögn Þorgríms. „Við stefnum á að ljúka rannsókninni í næstu viku og vonum að það gangi eftir,“ segir Þorgrímur.
Þegar rannsókn lögreglu lýkur verður málið sent til ákærusviðs þar sem tekin verður ákvörðun um næstu skref.