Sjö virkjanakostir settir í nýtingarflokk

Urriðafossvirkjun og Holtavirkjun fara í nýtingarflokk í þriðja áfanga verndar- …
Urriðafossvirkjun og Holtavirkjun fara í nýtingarflokk í þriðja áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Verkefnisstjórn rammaáætlunar hefur lagt fram drög að lokaskýrslu þriðja áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar. Í skýrslunni er gerð tillaga um flokkun 25 virkjunarkosta og svæða, en Stefán Gíslason, formaður verkefnisstjórnarinnar, tilkynnti um þetta á kynningarfundi í Hörpu.

Sjö virkjunarkostir í orkunýtingarflokk

Verkefnisstjórn leggur til að eftirfarandi kostir fari í orkunýtingarflokk en í þann flokk eru settir virkjunarkostir sem talið er að ráðast megi í:  Skrokkölduvirkjun, Holtavirkjun, Urriðafossvirkjun, Austurengjar, Hverahlíð II, Þverárdalur og Blöndulundur.

Fjögur svæði í verndarflokk

Í verndarflokk eru settir virkjunarkostir sem ekki þykir rétt að ráðast í. Lagt er til að þangað fari fjögur svæði með eftirtöldum virkjunarkostum:  Héraðsvötn (Villinganesvirkjun, Skatastaðavirkjanir C og D), Skjálfandafljót (Fljótshnúksvirkjun og Hrafnabjargavirkjanir A, B og C), Skaftá (Búlandsvirkjun) og Þjórsá vestur (Kjalölduveita).

Stóra-Laxá í biðflokki

Í biðflokki eru settir virkjunarkostir sem ekki er hægt að taka afstöðu til vegna skorts á gögnum. Lagt er til að þangað fari tveir virkjunarkostir í Hólmsá (við Atley og án miðlunar), Búðartunguvirkjun, Hagavatnsvirkjun, Stóra-Laxá, Trölladyngja, Innstidalur, Hágönguvirkjun, Fremrinámar og Búrfellslundur. Ekki lágu fyrir nægileg gögn til að meta Austurgilsvirkjun á Vestfjörðum og fer sá kostur því einnig í biðflokk.

Frestur rennur út 3. ágúst

Frá 11. maí til 3. ágúst fer fram tólf vikna lögbundið opið samráðsferli þar sem allir geta sent inn umsagnir.

Dagana 4. til 31. ágúst fer fram lokafrágangur á tillögu verkefnisstjórnar og 1. september verður tillagan afhent ráðherra.

Haustið 2016 mun ráðherra mæla fyrir tillögu til þingsályktunar.

Nánari upplýsingar um rammaáætlun má finna hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert