Fasteignafélagið Reitir áformar að byggja allt að 100 þúsund fermetra af atvinnu- og íbúðarhúsnæði við Kringluna. Til samanburðar er Kringlan nú rúmir 50 þúsund fermetrar og yrði þetta því sennilega mesta uppbygging verslunarhúsnæðis í sögu landsins.
Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, segir hugmyndina þá að bæta við verslunum og skrifstofum, byggja nýtt hótel og reisa allt að 250 íbúðir við Kringluna.
Guðjón segir Reiti horfa til Norðurlandanna í þessu efni. Þar séu mörg dæmi um að íbúðir og ýmis afþreying og þjónusta sé byggð upp við verslunarmiðstöðvar. Hann segir áformin unnin í samstarfi við Reykjavíkurborg. Markmiðið sé að hefja uppbyggingu á næstu árum.
Guðjón segir Reiti hafa hætt við uppbyggingu á stórum byggingarreitum í miðborg Reykjavíkur, enda hafi áhættan verið of mikil. Leiguverð sé í sumum tilfellum orðið svo hátt að það verði ekki hækkað meira. „Þetta er ekki bara spurning um hvort viðkomandi rekstraraðili sé í stakk búinn til að standa undir leigunni til nánustu framtíðar,“ segir Guðjón.