Ellen Calmon íhugar forsetaframboð

Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalags Íslands.
Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalags Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalags Íslands, íhugar nú alvarlega að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Hópur fólks hefur að undanförnu skorað á Ellen að bjóða sig fram og hefur hún ákveðið að taka sér nokkra daga til umhugsunar. Ákvörðunar er að vænta á næstu dögum.

Ellen segir að hið mögulega framboð hafi verið í skoðun í þó nokkurn tíma. „Mér er ljúft og skylt að skoða þetta eftir þessa áskorun og þá umræðu sem hefur átt sér stað í þessum hópi,“ segir Ellen, sem telur afar mikilvægt að horft sé til mannréttinda á Bessastöðum.

„Forseti Íslands getur haft áhrif á að við búum hér í betra samfélagi fyrir alla. Mér finnst að forsetinn þurfi að tala meira í þá átt. Af þeim sökum hef ég einna helst verið að velta þessu embætti fyrir mér,“ bætir hún við í samtali við mbl.is og segir að forsetinn þurfi að vera í mjög góðu sambandi við íbúa landsins og hafa góðan skilning á innviðum samfélagsins.

„Lætur verkin tala“

Ellen er 42 ára gömul og er gift Johani Tegelblom flugvirkja. Saman eiga þau fjögurra ára gamlan son, að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá stuðningshópi hennar.

Hún er kennari að mennt og með diplómagráðu í opinberri stjórnsýslu og hefur lagt stund á meistaranám í því fagi.  Hún hefur starfað sem kennari og  í opinberri stjórnsýslu á sveitarstjórnarstiginu, m.a. sem ritari borgarstjóra og fræðslu- og menningarfulltrúi hjá Seltjarnarnesbæ. Hún var einnig framkvæmdastjóri ADHD-samtakanna þar sem hún er nú stjórnarmaður.

„Ellen lætur verkin tala og hefur verið óþreytandi í baráttu sinni fyrir bættum lífskjörum öryrkja, fatlaðs fólks og aðstandenda þeirra. Hún hefur sinnt þeirri mannréttindabaráttu með stakri prýði enda er hún auðmjúk hugsjónarkona sem lætur verkin tala,“ segir í tilkynningunni.

„Hún er vel máli farin, manneskja orða sinna, einlæg og á auðvelt með að vinna með fjölbreyttum hópi fólks. Hún er lausnamiðuð og leitar ávallt til þeirra sem best þekkja málefnið hverju sinni í þeim tilgangi að leita faglegra lausna og leiða sem skynsamlegastar eru. Mannkostir hennar, haldgóð menntun og reynsla myndu nýtast vel í þessu leiðtogahlutverki enda hefur hún allt til brunns að bera til að inna verkefni og áskoranir embættisins af hendi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert