McDonald's snýr aftur - gefa ársbirgðir

Veitingastaðir McDonald's verða opnaðir aftur á Íslandi en athafnarmennirnir Sigmar Vilhjálmsson og Jóhannes Ásbjörnsson hafa tryggt sér sérleyfi til að selja hamborgara frá matsölurisanum. Þeir ætla að gefa ársbirgðir af Big Mac í dag í samstarfi við mbl.is og bjóða upp á Big Mac á 99 krónur.

Þeir félagar fengu senda stóra sendingu frá Bandaríkjunum á þriðjudag. Ætla þeir að bjóða upp á Big Mac máltíð á aðeins 99 krónur á veitingastaðnum Shake & Pizza í Keiluhöllinni í Grafarvogi en staðurinn mun opna klukkan 11 í dag. Þeir félagar stefna að því að opna fyrsta McDonald's staðinn af fimm með pomp og prakt í júní og segja að dagsetningin 17. júní hugnist þeim mjög. 

Til að taka þátt í leik, þar sem hægt er að vinna ársbirgðir af Big Mac, smelltu hér.

McDonald's er í 119 löndum og er með 36 þúsund útibú. Hamborgarakeðjan fæðir um 68 milljón manns á hverjum einasta degi.

Um ein og hálf milljón manna vinnur fyrir McDonald's um allan heim. Þeir eru frægastir fyrir hamborgara sína en einnig fyrir morgunmatinn og eftirréttina. Þá hafa þeir víkkað matseðilinn og bjóða upp á salat, fisk og fleira heilsusamlegt.

Gefa ársbirgðir

Jóhannes segir að áhugamannafélag um opnun McDonald's á Íslandi hafi talað við sig og það sé gott að vita af fastakúnnum nú þegar. „Nú getum við og megum tilkynna um þessa opnum sem verður ef allt gengur að óskum í júní. Af því tilefni höfum við sett saman lítinn leik á mbl.is þar sem við munum gefa ársbirgðir af Big Mac. En fyrirpartýið er í dag og það verður mikil hátíð hjá okkur hér í Grafarvogi á Shake & Pizza.

Plássið sem við höfum hér er mikið og McDonald's mun sóma sér vel í Keiluhöllinni. Hamborgari og keila fara vel saman,“ segir hann. Sigmar bendir á að þó fólk vinni ársbirgðir af Big Mac sé hann ekki endilega að mæla með því að borða slíkt á hverjum degi.

Til að taka þátt í leiknum, þar sem hægt er að vinna ársbirgðir af Big Mac, smelltu hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert