Ekkert mark er takandi á yfirlýsingum um eignir í skattaskjólum nema að ítarleg gögn liggi þar að baki. Í mörgum skattaskjólum halda yfirvöld engar skrár yfir eignir manna og því getur skattrannsóknaryfirvöldum hér á landi reynst ómögulegt að sannreyna upplýsingar sem aðeins eru yfirlýsingar viðkomandi aðila. Þetta segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, að hafi meðal annars komið fram á fundi leiðtoga stjórnarandstöðunnar með Bryndísi Kristjánsdóttur, skattrannsóknarstjóra auk stjórnsýslufræðings sem lauk rétt í þessu.
Árni segir að ástæða fundarins hafi verið að afla upplýsinga um afar flókið mál sem tengist skattaskilum forystumanna stjórnarflokkanna, þeirra Sigmunds Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra og Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra.
Sagði hann að skattrannsóknarstjóri hefði farið yfir það hvaða ráð íslensk skattyfirvöld hefðu í að ganga úr skugga um eignir einstaklingar og fyrirtækja í skattaskjólum. Árni sagði athyglisvert að heyra að ekkert mark væri takandi á yfirlýsingum forystumanna stjórnarflokkanna að þeir hefðu gert grein fyrir öllum eignum sínum í skattaskjólum. Engin tæki væru til að sannreyna slíkar upplýsingar.
„Það þarf að grafast enn frekar fyrir í þessu máli og gera ríkari kröfur um að menn opni sitt bókhald og fái einhverjar staðfestingar af alvöru,“ segir Árni í samtali við mbl.is. Þannig segir hann að koma þyrftu staðfestingar á fjármunafærslum eða stöðu sem staðfesti þessar eignir.
Þá sagði Árni að ef menn væru ekki að sækjast eftir skattfríðindum með að geyma fjármuni í skattaskjólum, þá væru menn líklegast að sækjast eftir því að skila ekki inn ársreikningum og uppfylla aðrar þær kröfur sem þyki eðlilegt að gera til félaga hér á landi.
„Við verðum að fá skýringu á því af hverju menn kjósa að vera í skattaskjólum,“ segir Árni. Bætti hann við að annað hvort treystu menn ekki íslensku krónunni sem væri öfugt við það sem þeir hefðu sagt íslensku þjóðinni, eða þá að þeir væru að leyna upplýsingum.
Málið sem nú er komið upp segir Árni vera grafalvarlegt mál. Það sé eitt ef um vangá sé að ræða þegar menn gleymi að upplýsa um ákveðin mál, en annað ef það er gert vísvitandi. „Það er full ástæða til að spyrja stjórnarþingmenn hvort þeir séu tilbúnir að styðja slíka framgöngu,“ segir Árni.
Í vikunni var greint frá því að stjórnarandstaðan ætlaði að leggja fram þingsályktunartillaga um þingrof og nýjar kosningar þegar þing kemur saman í næstu viku að loknu páskaleyfi. Síðan þá hefur komið í ljós að slíkt hefði engin bein réttaráhrif og að vald til að rjúfa þing sé hjá forsætisráðherra þó deila megi um hvort hægt væri að hunsa slíkan pólitískan vilja.
Aðspurður hvort stjórnarandstaðan áformi enn að leggja fram þingsályktunartillögu um þingrof í stað vantrauststillögu segir Árni að allt sé opið í þeim efnum. „Við munum ákveða á mánudaginn hvernig við háttum því,“ segir hann og bætir við að niðurstaðan muni fara eftir rannsóknum og sérfræðiráðgjöf síðustu daga og um helgina. Segir hann að auk skattrannsóknarstjóra hafi verið rætt við lögfræðinga og þá verði í gegnum stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd rætt við umboðsmann Alþingis.
„Við munum velta hverjum steini við, málið er það alvarlegt,“ segir Árni að lokum.