Aflandsfélagaeign verður rannsökuð

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks.
Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks. mbl./Eggert Jóhannesson

Forsætisnefnd Reykjavíkurborgar fundaði í morgun þar sem rætt var um siðareglur borgarfulltrúa og reglur um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum borgarfulltrúa og trúnaðarstörfum utan borgarstjórnar.

Svohljóðandi tillaga forsætisnefndar og áheyrnarfulltrúa Samfylkingar og Framsóknar og flugvallarvina var samþykkt á fundinum:

„Í ljósi frétta af aflandsfélögum í eigu borgarfulltrúa sem fluttar hafa verið að undanförnu telur forsætisnefnd brýnt að til þess bærir aðilar kanni málin til hlítar.

Því er þess farið á leit við innri endurskoðun og regluvörð borgarinnar að kannað verði hvort borgarfulltrúarnir Júlíus Vífill Ingvarsson og Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir hafi farið á svig við gildandi lög og reglur um skyldur og hæfi borgarfulltrúa, hvort reglum um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum borgarfulltrúa og trúnaðarstörfum utan borgarstjórnar hafi verið fylgt og hvort siðareglur borgarfulltrúa hafi verið brotnar.

Að sama skapi er óskað eftir því að siðanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga taki málið til skoðunar í samræmi við hlutverk nefndarinnar og 29. gr. sveitarstjórnarlaga.“

Málið verður tekið til umræðu á fundi borgarstjórnar sem hefst klukkan 14.00 í dag.

Í fréttatilkynningu segir Sóleyja Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar, það brýnt að leita svara við þeim spurningum sem komið hafa upp á síðustu dögum, enda verði hæfi kjörinna fulltrúa ávallt að vera hafið yfir allan vafa.

Í forsætisnefnd sitja Sóley Tómasdóttir, fulltrúi Vinstri grænna,  Halldór Auðar Svansson. fulltrúi Pírata og Elsa Hrafnhildur Yeoman fulltrúi Bjartrar framtíðar. Einnig sátu fundinn áheyrnarfulltrúar þau Magnús Már Guðmundsson fulltrúi Samfylkingar, Jóna Björg Sætran fulltrúi  Framsóknar og flugvallarvina og Halldór Halldórsson fulltrúi Sjálfstæðisflokks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka