Þingflokkur Framsóknarflokksins lýsir ánægju með þá virðingarverðu afstöðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem felst í því að formaðurinn „skuli vera reiðubúinn að stíga þetta skref til að gera ríkisstjórninni kleift að vinna áfram að þeim mikilvægu verkefnum sem nú liggja fyrir.“
Þetta kemur fram í tillögu sem samin var af Sigmundi sjálfum og Sigurði Inga Jóhannssyni, og samþykkt var á þingsflokksfundi Framsóknar í dag.
Í tillögunni leggur Sigmundur Davíð til að varaformaður flokksins, Sigurður Ingi, taki við embætti forsætisráðherra en Sigmundur mun áfram sinna embætti formanns Framsóknarflokksins og sitja sem þingmaður.
Tillagan í heild:
Forsætisráðherra leggur til að varaformaður flokksins taki við embætti forsætisráðherra svo það megi verða til að ríkisstjórnin geti lokið þeim mikilvægum verkum sem hún hefur unnið að og varða mikilvæga þjóðarhagsmuni.
Þingflokkurinn lýsir ánægju með þá virðingarverðu afstöðu formannsins sem felst í því að hann skuli vera reiðubúinn að stíga þetta skref til að gera ríkisstjórninni kleift að vinna áfram að þeim mikilvægu verkefnum sem nú liggja fyrir. Þingflokkurinn styður eftir sem áður formann flokksins og þykir mikilvægt að halda áfram þeirri vinnu sem sem formaðurinn hefur átt svo stóran þátt í að leggja grunn að.
Formaður, varaformaður og aðrir þingmenn flokksins eru sammála um að mikilvægt sé að halda áfram að upplýsa um þann fjölda fyrirtækja í eigu Íslendinga sem skráð eru erlendis til að tryggja að allir standi skil á sínu til samfélagsins eins og formaður flokksins og kona hans hafa gert.