Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur ekki sagt af sér og bað Sigurð Inga Jóhannsson um að taka að sér embætti forsætisráðherra í „ótiltekinn tíma“ samkvæmt tilkynningu sem upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar sendi erlendum blaðamönnum í kvöld.
Sigurður Már Jónsson, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, sendi hópi erlendra blaðamanna tilkynningu á ensku vegna viðburða dagsins nú í kvöld. Í henni kemur fram að Sigmundur Davíð hafi lagt fram tillögu við þingflokk Framsóknarflokksins um að varaformaður flokksins taki við embætti forsætisráðherra í ótilgreindan tíma.
„Forsætisráðherrann hefur ekki sagt af sér og mun áfram gegna stöðu formanns Framsóknarflokksins,“ segir í tilkynningunni.
Tillaga Sigmundar Davíðs er sögð endurspegla vilja hans til að standa ekki í vegi mikilvægra mála á dagskrá ríkisstjórnarinnar á borð við húsnæðisfrumvörp og umbætur á fjármálakerfinu.
Í tilkynningunni segir ennfremur að undanfarnar vikur hafi forsætisráðherra og eiginkona hans lagt fram „ítarleg svör“ um eignir eiginkonu ráðherrans. Þau hafi aldrei reynt að leyna þessum eignum fyrir íslenskum skattayfirvöldum. Eignirnar í Wintris Inc. hafi verið taldar fram á skattaskýrslum eiginkonu Sigmundar Davíðs frá árinu 2008. Skattar hafi verið greiddir í samræmi við það.
Fullyrt er að reglur þingsins um skráningu hagsmuna hafi ekki verið brotnar. Vísað er til þess í tilkynningunni að fjölmiðlar á borð við The Guardian segist ekki hafa séð nein gögn sem bendi til þess að forsætisráðherra, eiginkona hans eða Wintris hafi stundað skattaundanskot eða haft ólögmætan fjárhagslegan ávinning.
Fréttaritari Financial Times á Norðurlöndum hefur þegar tíst um málið: