Boðað til kosninga í haust

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson. Eggert Jóhannesson

Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson voru að koma á blaðamannafund í þinghúsinu. „Það verður haldið áfram ríkisstjórnarsamstarfi á grundvelli sömu verkaskiptingar og verið hefur,“ segir Bjarni. „Það verður haldið áfram með sömu megináherslum.“

Flokkarnir fara fyrir sömu ráðuneytum og verið hefur. „Það liggur fyrir skýr meirihluti fyrir áframahaldandi samstarfi flokkanna og við munum byggja það samstarf á þeim stóra meirihluta með sömu megináherslum,“ sagði Bjarni.

Bjarni segir stjórnarflokkana hafa brugðist við með sögulegum hætti er forsætisráðherra sagði af sér. „Í hans stól mun setjast Sigurður Ingi í samræmi við fyrri verkaskiptingu flokkanna.“

„En við ætlum að stíga viðbótarskref til þess að mæta kröfum um að virkja lýðræðið í landinu og til að koma til móts við þá stöðu sem hefur myndast þá hyggjumst við stefna að því að halda kosningar í haust og stytta þar með kjörtímabilið um eitt löggjafarþing. „ Bjarni sagði nákvæma dagsetningu kosninganna enn ekki liggja fyrir. „Hún mun ráðast af framvindu mála.“

Fyrir þingi séu mörg stór mál sem séu langt kominn, m.a. frumvarp tengt afnámi gjaldeyrishafta sem fram komi í þingi eftir 2-3 vikur.

Staðfestir að Lilja verði ráðherra

 „Það mikilvægasta er að þegar ríkisstjórnin hefur lokið sínum störfum þá er búið að styrkja hér innviði á öllum sviðum, enn frekar en nokkurn tímann hefur verið áður,“ sagði Sigurður Ingi.

Hann segir að upplýst verði á morgun hver taki við embætti landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra og staðfesti að Lilja Alfreðsdóttir muni verða ráðherra flokksins. Ekki sé hins vegar rétt, sem fram hefur komið í fjölmiðlum í dag, að til hafi staðið að gera Ásmund Einar Daðason að ráðherra, en að þingflokkurinn hafnað því.

Óskað hefur verið eftir að boðað verði til ríkissráðsfundar á morgun.

Spurður um stöðu Sigmundar Davíðs, sagði Sigurður: „Sigmundur hefur stigið til hliðar sem forsætisráðherra og verður þar með óbreyttur þingmaður.“

Verður að forgangsraða með styttra kjörtímabili

Engar breytingar verða gerðar á málefnaskrá ríkisstjórnarinnar, ekki sé nein ástæða til þess þar sem hún hafi ekkert með ástandið nú að gera, segir Bjarni. Þó verði að forgangsraða málum þar sem kjörtímabilið hafi verið stytt um eitt ár og verði áhersla þá lögð á þau málefni sem flokkarnir telja brýnust.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert