Ísland skilaboð til Rússa

P-8A eftirlitsflugvél.
P-8A eftirlitsflugvél. Ljósmynd/Bandaríski sjóherinn

Hvers vegna ætlar bandaríska varnarmálaráðuneytið að gera upp herstöð á Íslandi? Þessi spurning er sett fram í umfjöllun fréttavefs bandaríska tímaritsins Christian Science Monitor um fyrirætlanir Bandaríkjamanna um endurbætur á aðstöðu fyrir eftirlitsflugvélar á varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Rifjað er upp að til standi að verja umtalsverðum fjármunum í þessum efnum svo hægt verði að gera út P-8 Poseidon eftirlitsflugvélar frá Íslandi.

Rætt er við ýmsa sérfræðinga á sviði varnarmála í umfjölluninni sem telja mikilvægt fyrir Bandaríkjamenn og NATO að hafa aðstöðu hér á landi. Carl Hvenmark Nilsson hjá bandarísku hugveitunni Center for Strategic and International Studies segir miklu skipta að „hafa augu og eyru á Íslandi“ til þess að fylgjast með ferðum Rússa. Sérstaklega á norðurslóðum. Vísar hann þar til rússneskra herflugvéla, kafbáta og ofansjávarskipa um svæðið.

Landfræðileg staðsetning Íslands mikilvæg sem fyrr

Fram kemur í umfjölluninni að Íslandi hafi verið líkt við flugmóðurskip í miðju Norður-Atlantshafinu og að sérfræðingar á sviði varnarmála hafi verið furðu lostnir þegar Bandaríkjamenn hafi ákveðið að loka herstöðunni hér á landi árið 2006. Haft er eftir Sean Liedman, skipherra í bandaríska sjóhernum sem starfar með hugveitunni Council on Foreign Relations, að staðsetning Íslands á milli Evrópu og Bandaríkjanna sér afar hentug.

Sérfræðingar bandarísku varnarmálaráðuneytisins óttast meðal annars um öryggi neðansjávarkapla í Norður-Atlantshafi í ljósi vaxandi hernaðarumsvifa Rússa. Gerry Hendrix, fyrrverandi skipherra í bandaríska sjóhernum sem starfar í dag sem sérfræðingur hjá hugveitunni Center for a New American Security, segir að Bandaríkjamenn hefðu aldrei átt að draga úr starfssemi sinni á Íslandi. 

Haft er eftir John Higginbotham, sem starfar hjá kanadísku hugveitunni Centre for International Governance Innovation, að hann telji að ákvörðun Bandaríkjamanna um að gera endurbætur á aðstöðunni á Keflavíkurflugvelli í stað þess að koma upp varanlegri aðstöðu snúist um það að ögra ekki Rússum að óþörfu. Nilsson segir þeim fjármunum sem verja á til endurbótanna vel varið og muni ennfremur senda skýr skilaboð til Rússa um að hafa hemil á sér.

Bandarísku herstöðinni lokað með táknrænum hætti 2006.
Bandarísku herstöðinni lokað með táknrænum hætti 2006. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka