Lilja D. Alfreðsdóttir, nýr utanríkisráðherra Íslands segir starfið leggjast vel í sig og að hún taki við því af mikilli auðmýkt og þakklæti.
Lilja ræddi við fréttastofu RÚV að loknum ríkisráðsfundi á Bessastöðum rétt í þessu og sagði þá að aðeins væri um sólarhringur síðan henni var boðið starfið. Hún hafi þó tekið sér umþóttunartíma.
Lilja var í stjórn Evrópusamtakanna fyrir áratug og spurði fréttamaður RÚV hana því hvort hún væri á sömu línu og Framsóknarflokkurinn í Evrópumálum. Því játaði hún og sagðist styðja það fullkomlega að aðildarumsókn Íslands væri dregin til baka.
„Tíminn mun leiða það í ljós,“ sagði Lilja, aðspurð um hvort hún hyggðist bjóða sig fram með flokknum í haust. „Ég ætla að reyna að standa mig afskaplega vel á næstu mánuðum og ég ætla bara að sjá til hvernig gengur og vega og meta það þegar að því kemur.“
Spurði fréttamaður RÚV að lokum hvort hún myndi sakna Sigmunds Davíðs úr ríkisstjórninni og svaraði hún því játandi.