Eina leiðin

Jóhannes rýnir í Panama-skjölin við undirbúning þáttarins.
Jóhannes rýnir í Panama-skjölin við undirbúning þáttarins. Skjáskot/SVT

„Þetta er eina leiðin til að fá svör frá forsætisráðherranum,“ sagði Jóhannes Kr. Kristjánsson, er hann og Sven Bergmann, rannsóknarblaðamaður hjá Uppdrag granskning, undirbjuggu viðtalið við Sigmund Davíð Gunnlaugsson þann 11. mars í ráðherrabústaðnum.

Sven hafði spurt hann hvort hann vildi enn fara þessa leið, því það væri umdeilanlegt að lokka ráðherrann í viðtal. „Já,“ svarar Jóhannes. Sven er sammála. „Ég held að þetta sé eina leiðin til að ná honum á mynd.“

Þáttur Uppdrag granskning um aðdragandann að uppljóstrunum úr Panamaskjölunum var sýndur í sænska ríkissjónvarpinu í gær. Þar er Jóhannes, og hans þáttur í rannsókninni sem um 350 blaðamenn um allan heim unnu að, í brennidepli. Þátturinn verður sýndur á RÚV í kvöld en söguþráður hans er rakinn hér að neðan.

Það er 12. janúar 2016. Sven fer að hitta Jóhannes þar sem hann er að vinna að gerð þáttarins í sumarhúsi í Borgarfirði.

„Kollegar mínir úti í heimi eru farnir að kalla mig The lonely journalist,“ segir Jóhannes. „Ég er búinn að vera einmana í þessu starfi.“ Hann sé að vinna með stærsta gagnaleka sögunnar. „Ég hef alltaf varann á mér. Ísland er mjög lítið land.“

Jóhannes segir að í sumarhúsinu geti hann fengið frið. Verið rólegur. Geti „breitt úr mér með öll blöðin mín.“

En ákveðnar hugsanir sækja að honum. „Ég fer að hugsa um það hverjar afleiðingarnar geta orðið.  Þar sem það er mjög áhrifamikið fólk sem við erum að fara að fjalla um. Ráðherrar, mjög ríkir einstaklingar, bæði hér á Íslandi og úti í heimi. Ég held að  heimurinn sem að við erum að skyggnast inn í sýni það hvernig græðgin getur farið með fólk.“

Þegar Sven ber að garði í bústaðnum er snjór úti. Dimmt yfir. Jóhannes virðist rólegur, yfirvegaður. Á eldhúsborðinu, sem hann kallar skrifborðið sitt, eru bunkar af pappírum og myndum. Þarna fer rannsóknarvinnan nú fram.

„Ég sé að helstu stjórnmálamennirnir eru hér,“ segir Sven þegar hann lítur yfir borðið. Jóhannes svarar: „Já, þarna sérðu forsætisráðherrann og konu hans,“ en á borðinu liggur einmitt mynd af þeim, límd á afrit af skjalinu sem sannar að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, seldi eiginkonu sinni hlut sinn í aflandsfélaginu Wintris 31. desember árið 2009. Undirskrift hans er neðst á blaðinu. Og Jóhannes hefur litað dagsetningu sölunnar gula til áherslu. Daginn eftir tóku lög til höfuðs aflandsfélögum gildi á Íslandi.

Sven segir að gögnin sem Jóhannes er að rýna í gætu breytt sögu Íslands.

„Almenningur á Íslandi verður hneykslaður,“ segir Jóhannes. „Og fær áfall,“ bætir hann svo við eftir stutt hik. „Fólkið mun ekki sætta sig við að æðstu stjórnmálamenn landsins eru flæktir í aflandsviðskiptin.“

Í þættinum er ferill Jóhannesar rakinn og tekið fram að eftir að hann hætti í Kastljósi Ríkissjónvarpsins fyrir nokkru hafi hann horfið úr hinu eiginlega kastljósi fjölmiðla og „inn í skuggana“.

Jóhannes segir Sven frá því að eiginkona hans hafi fengið símtöl þar sem hún er spurð hvar hann sé eiginlega. „Hvar er Jóhannes? Af hverju er hann ekki að vinna? Margir halda að ég sé bara ekkert að vinna, að ég sé bara letingi. En þeir munu komast að því þann 3. apríl klukkan 19,“ segir Jóhannes en þá stóð fyrst til að sýna þáttinn um uppljóstranirnar. Hann var reyndar sýndur klukkustund fyrr og sambærilegar upplýsingar, m.a. um mál íslenska forsætisráðherrans, birtar í tugum fjölmiðla samtímis víða um heim.

Í þættinum kemur fram í máli Sven að í engu öðru landi en Íslandi komi jafn margt valdamikið fólk við sögu í gögnunum sem var lekið. Hann telur upp: Frammámenn í viðskipta- og efnahagslífi, lögmenn og stjórnmálamenn, sem þegar hefur verið upplýst um hverjir eru. Þarna er því gefin vísbending um það sem koma skal en frekari uppljóstrana úr skjölunum er að vænta.

Jóhannes og Sven standa fyrir utan stjórnarráðið. Þeir spjalla sín á milli á meðan ráðherrar tínast inn á ríkisstjórnarfund. „Þegar ég sé þá núna þá hugsa ég: Hvað þú ert falskur,“ segir Jóhannes þungur á brún. Sven spyr hann hvort hann sé hræddur um að hann verði stöðvaður með einhverjum hætti. „Já,“ svarar Jóhannes. „Því þeir eru valdamiklir og Ísland er lítið land. Ég held að þeir eigi eftir að reyna að breyta sögunni, breiða út ósannindi um mig og eiginkonu mína.“

Síðar segir hann: „Ég held að þessi leki sýni það að einstaklingar, hvar sem er í heiminum, eru að fela peninga, fela eignir og ekki borga skatta. Á meðan almenningur þarf að borga skatta og hefur ekkert um það að segja.“

Í byrjun ársins er Jóhannes  einnig að velta fyrir sér hvar hann eigi að birta upplýsingar. „Það sem ég hugsa núna er hvernig get ég klárað þetta? Hvar á ég að birta þetta? Get ég verið í samstarfi við einhvern fjölmiðil? Ef það lekur út, mun einhver reyna að fá lögbann á fréttina? Hvaða afleiðingar mun þessi frétt hafa á mína framtíð sem blaðamaður á Íslandi?“

Svo kemur að stóra málinu. Þeir velta fyrir sér hvernig hægt sé að fá  forsætisráðherrann í viðtal. Ákveðið er að betra sé að fréttamenn Uppdrag granskning fái viðtalið. Síðar tala þeir saman á Skype og Sven spyr Jóhannes: „Ertu ennþá sáttur við það að gera þetta?“ og á þarf við hvernig þeir ætli að nálgast Sigmund Davíð um málið.

„Já,“ svarar Jóhannes. „Því þetta er eina leiðin sem við höfum til að fá svör frá forsætisráðherranum. Þessi frétt er svo stór að við verðum að hugsa um hagsmuni heildarinnar.“

Sven svarar: Þetta er umdeilanlegt, að fara þarna, þykjast vera að fjalla um eitt og eiginlega lokka hann í þetta, en ég held að þetta sé eina leiðin til að ná honum í mynd.“

Það er svo ákveðið að æfa viðtalið. Hvar myndavélarnar eigi að vera. Hvar Sven eigi að sitja og hvar Jóhannes eigi að bíða áður en hann blandar sér svo í viðtalið sjálft. Þetta gera þeir heima hjá Jóhannesi í Reykjavík. „Við ættum að undirbúa okkur fyrir allt,“ segir Jóhannes. Í æfingunni er ýmsum möguleikum velt upp. „Ef hann stendur upp og gengur út vil ég geta elt hann,“ segir Jóhannes m.a.

„Þú átt eftir að hata mig allt þitt líf ef ég klúðra þessu,“ segir Sven og hlær. Jóhannes svarar: „Nei, en þú veist, hann mun hata mig það sem eftir er af hans lífi,“ og á þar við Sigmund Davíð.

Viðtalið fer svo fram þann 11. mars eins og fram hefur komið. Þeir mæta snemma í ráðherrabústaðinn og undirbúa myndavélarnar. Jóhannes sest við píanó í herberginu, úr augsýn ráðherrans og bíður átekta. Sigmundur mætir, þeir Sven heilsast og viðtalið hefst. Í fyrstu er spurt um efnahagsástandið á Íslandi og aðgerðir stjórnvalda en svo beinast spurningarnar að forsætisráðherranum persónulega. Á hann sjálfur einhver tengsl við aflandsfélög?

Augljóst hik kemur á Sigmund. „Ég sjálfur? Tja...“ Hann svarar svo spurningunni á þann veg að hann hafi unnið hjá íslenskum fyrirtækjum og íslensk fyrirtæki hafi tengst aflandsfélögum. „Það hefur verið í gegnum svoleiðis aðstæður, en ég hef alltaf gefið upp allar mínar eignir og minnar fjölskyldu upp til skatts. Eignir mínar eru hvergi faldar.“

Svo er spurt um Wintris. Svarið við þeirri spurningu er einnig óskýrt. Hann segir að ef hann muni rétt væri Wintris tengt fyrirtæki sem hann sat í stjórn fyrir. Ráðherrann hikar ítrekað. „...það hafði reikning...“

Og þá kemur Jóhannes og sest við hlið Sven sem hafði þar til þá spurt spurninganna. Sigmundur svarar Jóhannesi á íslensku. Segist taka viðtal um Wintris seinna. Síðar segist hann hafa verið plataður í viðtalið á fölskum forsendum.

Ekki líður á löngu þar til Sigmundur stendur upp og gengur út. Jóhannes eltir hann en kemur að lokuðum dyrum í einu herbergja ráðherrabústaðarins.

Allir þekkja framhaldið. Þáttur Reykjavík Media og Kastljóss var sýndur kl. 18 síðasta sunnudag á RÚV. Fjölmenn mótmæli fóru fram á Austurvelli á mánudeginum. Á þriðjudag ákvað forsætisráðherrann Sigmundur Davíð „að stíga til hliðar“ eins og þingmenn Framsóknarflokksins hafa orðað það. Í dag tekur svo breytt ríkisstjórn við völdum á Íslandi. Sigmundur Davíð á ekki sæti í henni. Hann situr þó áfram á þingi.

Jóhannes fylgist með eiginkonu sinni ræða við Sven um rannsóknarvinnuna.
Jóhannes fylgist með eiginkonu sinni ræða við Sven um rannsóknarvinnuna. Skjáskot/SVT
Samantekt Kastljóss á þeim þjóðarleiðtogum og fyrrverandi þjóðarleiðtogum sem tengdust …
Samantekt Kastljóss á þeim þjóðarleiðtogum og fyrrverandi þjóðarleiðtogum sem tengdust lekanum. Mynd/Rúv
Jóhannes spyr Sigmund Davíð um Wintris í ráðherrabústaðnum.
Jóhannes spyr Sigmund Davíð um Wintris í ráðherrabústaðnum. Skjáskot/SVT
Sigmundur Davíð neitar að svara frekari spurnng um Wintris. Segist …
Sigmundur Davíð neitar að svara frekari spurnng um Wintris. Segist ætla að gera það seinna. Skjáskot/SVT
Jóhannes Kr. og eiginkona hans fylgjast með mótmælunum á Austurvelli …
Jóhannes Kr. og eiginkona hans fylgjast með mótmælunum á Austurvelli í kjölfar sýningar þáttarins sem Jóhannes vann að mánuðum saman, án þess að nokkur vissi. Nema eiginkonan. Skjáskot/SVT
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka