Við eftirlit byggingarfulltrúa í dag, 7. apríl, kom í ljós að húsið nr. 12 við Tryggvagötu, svokallað Exeter hús, hefur allt verið rifið. Gildandi deiliskipulag veitti aðeins heimild til að lyfta húsinu upp um eina hæð, breyta formi þaks á bakhlið og gera við viðbyggingu.
„Ekkert byggingarleyfi hefur verið gefið út fyrir fyrirhugaðri uppbyggingu á lóðinni, en með byggingarleyfi frá 16. mars s.l. var veitt leyfi til að rífa hluta hússins Tryggvagötu l2 til undirbúnings endurbóta á húsinu,“ segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
„Reykjavíkurborg lítur mjög alvarlegum augum á málið því með niðurrifi alls hússins var farið langt út fyrir gildandi byggingarleyfi. Niðurrif hússins var því óleyfileg framkvæmd, án allra tilskilinna leyfa og í andstöðu við gildandi deiliskipulag, en um byggingarleyfisskyldar framkvæmdir er að ræða (...) Byggingarfulltrúi Reykjavíkur hefur því stöðvað framkvæmdir á reitnum og jafnframt veitt eigendum sjö daga frest til að koma á framfæri skriflegum skýringum og athugasemdum vegna málsins."
Að frestinum liðnum mun byggingarfulltrúi taka ákvörðun um til hvaða aðgerða verði gripið af hálfu borgarinnar og „eftir atvikum kæra málið til lögreglu“.