Minjastofnun Íslands hyggst kæra niðurrif Exeter hússins svo nefnda, rifið var í gær. Þetta staðfestir Kristín Huld Sigurðardóttir, forstöðumaður Minjastofnunnar.
„Við hjá Minjastofnun höfðum veitt leyfi til að hækka húsið og til þess að hækka það þá þarf að taka það af grunninum,“ segir Kristín Huld. Gildandi deiliskipulag hafi aðeins veitt heimild til að lyfta húsinu upp um eina hæð, breyta formi þaks á bakhlið, sem og að reisa viðbyggingu við húsið.
Til stendur að reisa nýbyggingar á reitnum og átti gamla húsið, sem stóð við Tryggvagötu 12, að falla inn í þá mynd með breytingum.
Í morgun bárust Minjastofnun hins vegar myndir sem starfsmaður Borgarsögusafnsins tók í gær og sýndu að verið var að rífa húsið.
„Við fórum því niður eftir í morgun og þá var allt horfið,“ segir Kristín Huld. Húsið hafi verið rifið í fullkomnu óleyfi því hvorki Minjastofnun né Byggingafulltrúinn í Reykjavík hafi veitt leyfi fyrir niðurrifinu. „Minjastofnun mun kæra málið og ég veit ekki betur en að Reykjavíkurborg muni gera það líka.“
Kristín Huld segir að enginn svör hafi enn borist frá verktakanum, en húsið sem var reist 1906 hafi vissulega haft menningarsögulegt gildi.
„Það eina sem við getum gert er að kæra svona mál til lögreglunnar til að láta athuga hvað er í gangi.“
„Ekkert byggingarleyfi hefur verið gefið út fyrir fyrirhugaðri uppbyggingu á lóðinni, en með byggingarleyfi frá 16. mars s.l. var veitt leyfi til að rífa hluta hússins Tryggvagötu 12 til undirbúnings endurbóta á húsinu,“ segir í tilkynningu sem Reykjavíkurborg sendi frá sér í dag.
„Reykjavíkurborg lítur mjög alvarlegum augum á málið því með niðurrifi alls hússins var farið langt út fyrir gildandi byggingarleyfi. Niðurrif hússins var því óleyfileg framkvæmd, án allra tilskilinna leyfa og í andstöðu við gildandi deiliskipulag, en um byggingarleyfisskyldar framkvæmdir er að ræða (...) Byggingarfulltrúi Reykjavíkur hefur því stöðvað framkvæmdir á reitnum og jafnframt veitt eigendum sjö daga frest til að koma á framfæri skriflegum skýringum og athugasemdum vegna málsins.“
Að frestinum liðnum mun byggingarfulltrúi taka ákvörðun um til hvaða aðgerða verði gripið af hálfu borgarinnar og „eftir atvikum kæra málið til lögreglu“.