Vika er liðin síðan síðasta manneskja greindi opinberlega frá hugsanlegu framboði sínu til embættis forseta Íslands.
Fram að því hafði fjöldinn alllur af mögulegum frambjóðendum stigið fram, þar á meðal tveir hinn 1. apríl, tveimur dögum áður en þáttur Kastljóss um Panamaskjölin var sýndur. Það voru Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalags Íslands, og Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Akureyrar.
Frétt mbl.is: Ellen Calmon íhugar forsetaframboð
Heilmikið hefur gerst í íslensku stjórnmálalífi síðan Panamaskjölin voru afhjúpuð. Ný ríkisstjórn hefur tekið við með Sigurð Inga Jóhannsson í fararbroddi, auk þess sem Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, var mikið í umræðunni eftir að hann neitaði að veita Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, fyrrverandi forsætisráðherra, heimild til að rjúfa þing.
Frétt mbl.is: Veitti ekki heimild til þingrofs
Grétar Þór Eyþórsson, stjórnmálafræðingur og prófessor við Háskólann á Akureyri, segir augljóst að hafi einhver verið á leiðinni að stíga fram og tilkynna um framboð hafi sá hinn sami ákveðið að bíða með það þangað til mesti pólitíski stormurinn gengur yfir.
„Þeir sem hafa verið að íhuga að bjóða sig fram og líka þeir sem kunna að vera búnir að ákveða það velja ekki svona tíma til að stíga fram þegar aðrir eru á sviðinu,“ útskýrir Grétar Þór.
„Það hefur verið vikustopp en ég veit ekki hvort það verður mikið lengra. Ég held að fólk hljóti að fara að taka af skarið núna á næstu dögum.“
Forsetakosningarnar fara fram 25. júní en tilkynna þarf framboð fimm vikum fyrir kosningar, eða 21. maí. Einn og hálfur mánuður er því til stefnu fyrir þá sem eiga enn eftir að staðfesta framboð sitt.
Einhverjir vilja meina að með gjörningi sínum hafi aukist líkurnar á því að Ólafur Ragnar bjóði sig enn og aftur fram sem forseta. Sjálfur virðist hann ekki algjörlega hafa útilokað möguleikann á því.
Grétar Þór telur ólíklegt að Ólafur Ragnar ákveði að bjóða sig fram á nýjan leik. „Það var talað við hann á þriðjudaginn og mér fannst ekki vera hægt að túlka hann þannig að það væri líklegt að hann ætlaði að hætta við að hætta. Hins vegar hljóta atburðir undanfarinna daga að auka líkurnar á því að það geti stigið fram framjóðandi sem er vel að sér á stjórnmálasviðinu og í stjórnskipan landsins. Með þessum atburði með Ólaf Ragnar og Sigmund Davíð vorum við kannski minnt á að það getur verið gott að forsetinn sé vel að sér í slíku, hvað svo sem verður,“ segir hann.
Spurður hvort margir slíkir frambjóðendur eða mögulegir frambjóðendur hafi hingað til stigið fram á sjónarsviðið segir hann að það hafi alls ekki verið þannig. „En nokkrir slíkir hafa verið orðaðir við framboð. Við vitum ekki mikið enn um hvernig þau mál þróast en við getum talað um Össur Skarphéðinsson og Stefán Jón Hafstein sem dæmi um menn sem hafa verið í stjórnmálum. Svo er nafn Bryndísar Hlöðversdóttur uppi líka. Sigrún Stefánsdóttir er líka reynslumikil manneskja úr þjóðfélaginu en þetta eru bara dæmi sem ég nefni og alls ekki tæmandi listi,“ bætir hann við.
„Maður myndi ætla að miðað við að þennan pólitíska storm lægi undir helgina, að það verði kannski eitthvað að frétta í næstu viku af forsetaframboðssviðinu," segir Grétar Þór.