Píratar samþykktu í atkvæðagreiðslu sem lauk seint í síðustu viku ályktun um að gerð verði opin, fagleg staðarvalsgreining á helstu mögulegum staðsetningum nýja Landspítalans, á höfuðborgarsvæðinu. „Þegar mat á einstökum staðsetningum liggur fyrir verði landsmönnum falið að velja á milli þeirra bestu í vandaðri viðhorfskönnun eða þjóðaratkvæðagreiðslu,“ segir í ályktuninni. Var tillagan samþykkt með 66 atkvæðum gegn 30.
Alls voru þrjár tillögur að ályktunum er varða framtíð Landspítalans lagðar fram og lauk kosningu um þær allar kvöldið 3. apríl.
Hinar tvær tillögurnar voru báðar felldar. Önnur þeirra fól í sér að unnið verði áfram að hönnun á spítalabyggingum við Hringbraut samhliða þess að skoðað yrði staðarval og hönnun á nýrri spítalabyggingu sem þyrfti ekki að vera á höfuðborgarsvæðinu. Sú tillaga var felld með 15 atkvæðum gegn 71.
Hin tillagan sem felldar var fól í sér að styðja við uppbyggingu nýs Landspítala við Hringbraut í samræmi við núverandi aðgerðaráætlun stjórnvalda en á sama tíma veita málefnafélagi Pírata um sjúkrastofnanir og heilsugæslu umboð til þess að afla gagna, hafa samráð við sérfræðinga og hagsmunaaðila um málefni nýs Landspítala til þess að tryggja að flokksmeðlimir verði upplýstir um gang mála.
Í þeirri tillögu fólst einnig að komi fram upplýsingar sem benda til þess að almannahagsmunir krefjist nauðsynlega endurskoðunar á staðsetningu spítalans þegar litið er til heildarsamhengis, skuli efna til félagsfundar þar sem afstaða flokksins verði endurskoðuð. Sú tillaga var felld með 38 atkvæðum gegn 56.