Hættir Þorgrímur við?

Þorgrímur Þráinsson segir að áhugi sinn á forseta embættinu hafi …
Þorgrímur Þráinsson segir að áhugi sinn á forseta embættinu hafi farið minnkandi. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Þorgrímur Þráinsson, rithöfundur og forsetaframbjóðandi, segir í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu í morgun að áhuginn hans á forsetaembættinu fari dvínandi.

„Brátt eru liðnir fimm mánuðir frá því ég var spurður, algjörlega óvænt, hvort ég hefði hugsað mér að sækjast eftir því að verða næsti forseti Íslands. Af heiðarleika og hreinskilni svaraði ég játandi. Á síðustu vikum hefur áhuginn á embættinu fjarað út, af margvíslegum ástæðum,“ segir Þorgrímur í grein sinni.

Í júní, þegar forsetakosningarnar fara fram, standi hugur hans fyrst og fremst til að leggja sitt af mörkum til að Ísland standi sig sem best á EM í Frakklandi. „Þar fyrir utan vil ég halda áfram að skrifa barnabækur og gera mitt besta til að hreyfa við þúsundum ungmenna“.

Galið að forseti geti verið kosinn með innan við 15% atkvæða

Þorgrímur skrifar að hann hafi fullan skilning á því að fólk eigi almennt erfitt með að sjá einhvern feta í fótspor Ólafs Ragnars Grímssonar í embætti forseta Ísland. „Afstaða fólks til embættisins hefur mótast á þeim 20 árum sem Ólafur hefur starfað sem forseti og þess vegna mun umræðan fram að kosningum án efa litast af því hvaða sýn menn hafa á störf núverandi forseta.“

Sjálfur sé hann sömu skoðunar og Vigdís Finnbogadóttir. „Að forseti Íslands eigi að hafa sem minnst pólitísk afskipti, nema þau sem stjórnarskráin kveður á um. Og málskotsrétturinn ætti fyrst og síðast að vera í höndum fólksins í landinu. Þar fyrir utan er galið að næsti forseti þjóðarinnar verði hugsanlega kosinn með innan við 15% atkvæði. Því þarf að breyta.“

Þorgrímur segir því næst að hann sé þeirrar skoðunar að forsetinn eigi að vera þjónn þjóðarinnar og gera sitt besta til að bæta samfélagið með margvíslegum hætti án þess að blása í herlúðra. „Manngæska er málið og það er göfugast að ýta góðum málefnum úr vör án þess að nokkur hafi hugmynd um hvaðan þau eru sprottin,“ segir í grein Þorgríms sem fjallar því næst um það sem betur mætti fara í umönnun yngstu og elstu kynslóðanna, áður en hann klikkir út með orðunum:

„Og ég er þeirrar skoðunar að áður en kemur til aðgerða stjórnvalda, á hvaða vettvangi sem er, eigi alltaf að spyrja: Hver er hagur almennings? Hann á alltaf að vera í fyrsta sæti.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert