Embætti héraðssaksóknara hefur enn til skoðunar 19 mál sem tengjast fjármálahruninu til viðbótar við þann fjölda mála sem hefur verið ákært í eða er til meðferðar hjá dómstólum landsins. Af þeim eru þrjú mál sem tengjast stóru viðskiptabönkunum þremur sem féllu. Þetta kemur fram í svari embættisins við fyrirspurn mbl.is.
Rétt eftir áramótin kom fram í frétt mbl.is að aðalhitinn væri á 22 málum sem væru í skoðun hjá saksóknurum embættisins. Rannsókn á þeim væri lokið og verið væri að fara yfir þau áður en ákvörðun um ákæru væri tekin. Síðan þá hefur embættið ákært í markaðsmisnotkunarmáli Glitnis og fyrrum sparisjóðsstjóra SpKef.
Í markaðsmisnotkunarmálinu voru saman tekin fimm mál í eitt, en ákveðið var að ákæra aðeins í tveimur þeirra. Þar af leiðandi voru þrjú þeirra felld niður. Í máli SpKef voru fjögur mál til skoðunar, en ákært í tveimur þeirra. Samtals var því ákært í fjórum málum en fimm felld niður sem tengjast þessum tveimur félögum á síðasta ársfjórðungi. Enginn önnur mál sem voru hjá embættinu hafa verið felld niður á þessum tíma.
Þau 19 mál sem eru til skoðunar hjá embættinu skiptast þannig niður að 13 eru í ákærumeðferð, þ.e. bíða þess að saksóknari hjá embættinu taki ákvörðun um hvort ákært verði í málunum eða ekki. Þá er eitt mál í bið og fimm enn í rannsókn. Það eru þrjú þessara 13 mála sem eru í ákærumeðferð sem tengjast föllnu viðskiptabönkunum þremur.
Um áramótin var gerð breyting á saksóknaraembættum landsins og var sérstakur saksóknari lagður niður og í staðinn stofnað embætti héraðssaksóknara. Fluttust nokkur verkefni ríkissaksóknara einnig yfir til nýja embættisins ásamt því að það tekur yfir flest verkefni sérstaks saksóknara.
Frétt mbl.is: 28 hrunmál í skoðun hjá saksóknara