HB Grandi, Byggðastofnun og atvinnuvegaráðuneytið eru að vinna með Vopnfirðingum að úrlausn afleiðinga innflutningsbanns Rússa á íslenskar sjávarafurðir, sem og vegna minni loðnuveiða. HB Grandi er meðal annars að útbúa aðstöðu til bolfiskvinnslu.
Þetta segir Aðalsteinn Þorsteinsson, forstjóri Byggðastofnunar.
Kallað hefur verið eftir stuðningi við smærri byggðarlögin í landinu vegna innflutningsbanns Rússa.
„Annars staðar hafa fyrirtæki á viðkomandi stöðum brugðist við með því að efla aðra vinnslu og flest, ef ekki öll sjávarútvegsfyrirtæki ákváðu að segja ekki upp starfsfólki. Sú ákvörðun er mikilvæg þó vissulega verði starfsfólk fyrir tekjuskerðingu, jafnvel mikilli,“ segir Aðalsteinn.
Um hálft ár er liðið síðan Byggðastofnun sendi frá sér skýrslu, að beiðni atvinnuvegaráðuneytisins, um byggðaleg áhrif innflutningsbanns Rússa. Þar kom fram að bannið hefði mikil áhrif á Þórshöfn, Raufarhöfn, Vopnafjörð, Neskaupstað, Eskifjörð, Fáskrúðsfjörð, Höfn, Vestmannaeyjar, Snæfellsbæ og Garð.
Samtals var reiknað með því að tekjutap sjómanna og landverksfólks vegna innflutningsbannsins á heilu ári gæti numið 990 til 2.550 milljónum króna.
Aðalsteinn segir of stuttan tíma hafa liðið frá því að skýrslan var samin til að hægt sé að segja til um hvort það sem reiknað er með þar hafi gengið eftir. Þó sé vitað um tekjutap hjá ákveðnum aðilum. Hversu mikið það er og hvað af því sé af völdum banns Rússa og hvað af öðrum orsökum, svo sem minni loðnuveiða, sé óljóst.
„Vonandi hefur skýrslan okkar orðið til að undirstrika alvarleika afleiðinga innflutningsbanns Rússa og þannig átt þátt í að stuðla að ábyrgri umræðu og ákvarðanatöku aðila,“ segir Aðalsteinn.