„Ef til vill hefur síðustu ríkisstjórnum mistekist að ná samtali við þjóðina. Einhverra hluta vegna höfum við ekki fundið rétta tóninn. Ríkisstjórn mín mun því á næstunni kalla stjórnarandstöðuna og fleiri til samráðs um ýmis mál sem þarf að leysa, svo sem afnám hafta og húsnæðismálin.“
Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra í samtali í Morgunblaðinu í dag um nokkur stór verkefni sem hann segir þurfa að ljúka, áður en kosið er í haust.
Sigurður Ingi segir að vissulega sé það ekki óskastaða að taka við forystu í ríkisstjórn eins og sakir standa. Hann telji þó að nú sé brýnast að reyna að byggja á ný upp traust milli stjórnmálamanna og þjóðar. „Verkefnið er vandasamt en ég mæti því af fullri auðmýkt,“ segir Sigurður Ingi meðal annars í samtalinu.