Skipti sér ekki af daglegri pólitík

Andri Snær Magnason
Andri Snær Magnason mbl.is/Eggert Jóhannesson

Andri Snær Magnason, rithöfundur og forsetaframbjóðandi, segir forseta ekki eiga að skipta sér af daglegri pólitík.

Hann eigi hins vegar að leggja fram sterka sýn í stóru málunum, segir Andri Snær og tekur dæmi: „Hvernig við eigum að landa stjórnarskránni en ekki endilega hvað er í henni. Og landa þeirri hugmynd að hálendisþjóðgarður séu okkar stærstu þjóðarhagsmunir, án þess þó að fara út í smáatriða útfærslur,“ segir hann.

Andri Snær tilkynnti um framboð sitt fyrir fullum sal stuðningsmanna í Þjóðleikhúsinu síðdegis í dag. Meðal viðstaddra voru þau Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, og Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.

Frétt mbl.is: Forseti geti leitt saman ólíka hópa

Hafði valið „óheppilegri dagssetningar“

Spurður út í það hvers vegna hann hafi tilkynnt um framboð sitt í dag, og hvort atburðir síðustu daga hafi haft áhrif á tímasetninguna, segir Andri Snær að hann sé síður en svo að stökkva inn í ástandið.

„Í rauninni var ég búinn að velja óheppilegri dagssetninga,“ segir Andri Snær og vísar væntanlega til síðustu viku.

Þrettán manns hafa gefið kost á sér fyrir komandi forsetakosningar. Spurður hversu mörg prósent atkvæða hann telji að forseti þurfi að hljóta til þess að geta talist starfa í umboði þjóðarinnar vísar Andri Snær til nýrrar stjórnarskrár: „Hann þarf að fá þau atkvæði sem talað er um í nýrri stjórnarskrá. En við verðum að fylgja þeim reglum sem eru núna,“ segir Andri Snær.

Tekur ekki „stjórnsýsluleg gítarsóló“

Eins og frægt er orðið ákvað Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, að hafna beiðni Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, um þingrof.

Hvernig hefðir þú brugðist við beiðni Sigmundar Davíðs, hefðir þú verið forseti?

„Það er mjög auðvelt að vera vitur eftir á, en ég held að það sé ekkert svo flókið mál í rauninni,“ segir Andri Snær. Hann segist myndu hafa kallað til aðstoðarmenn, sérfræðinga, forystumenn flokka á Alþingi.

„Mér finnst ekki hægt að taka þessa ákvörðun einn og án ráðgjafar. Ég myndi ekki taka stjórnsýslulegt gítarsóló. Það eru reglur um hvernig brugðist sé við svona málum og í nýju stjórnarskránni er það skýrt enn betur. Það er kannski ástæðan fyrir því að við þurfum nýja stjórnarskrá, því hlutverk forsetans er óljóst.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert