Einkavæðing bankanna tekur nokkur ár

Ashok Bhatia (t.v.), formaður sendinefndar AGS, ásamt hagfræðingi sjóðsins um …
Ashok Bhatia (t.v.), formaður sendinefndar AGS, ásamt hagfræðingi sjóðsins um málefni Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hitti forsætisráðherra Íslands, Sigurð Inga Jóhannsson, á fundi fyrr í dag. Ashok Bhatia, formaður sendinefndarinnar, segir að Sigurður hafi á fundinum fullvissað sig um að ríkisstjórnin ætlaði að standa þétt við áform fyrri ríkisstjórnar um haftalosun og að horft verði að vinna áfram að þeim á komandi mánuðum.

Ekki sést frá því fyrir hrun

Sendinefndin hélt árlegan fund sinn á Kjarvalsstöðum í dag þar sem farið var yfir stöðu mála hér á landi og atriði sem bæri að varast. Hefur sendinefndin verið hér á landi í 2 vikur og upplifðu þau frá fyrstu hendi ástandið hér í kjölfar þess að upplýst var um Panama-skjölin og breytingu á ríkisstjórninni. Hefur sendinefndin fundað með fjölda einstaklinga og stofnunum á þessum tíma.

Bhatia sagðist telja ástandið hér vera mjög gott núna og að svona staða hefði ekki sést frá því fyrir hrun. Munurinn væri aftur á móti sá að fyrir hrun hefði verið um blöðruhagkerfi að ræða sem hafi sprungið. Núna væri aftur á móti mun stöðugri stoðir í hagkerfinu og nefndi hann sérstaklega ferðaþjónustuna sem drifkraft.

Vara við annarri kollsteypu

Í samantekt sjóðsins um stöðuna hér á landi er varað við auknum útgjöldum, ofþenslu og launahækkunum sem gætu valdið annarri kollsteypu. Bhatia sagði á fundinum að meðal annars væri horft til að halda kosningar fyrr en áformað var og þá gætu stjórnvöld freistast til að bæta í útgjöldum. Þá væri aukin krafa í þjóðfélaginu um meiri útgjöld til heilbrigðismála og menntamála sem gætu komið ofan á miklar launahækkanir og einkaneyslu. Sagði hann þetta þó ekki vera spá sjóðsins, heldur frekar mat á áhættuþáttum.

Telja Seðlabankann þurfa að hækka vexti

Þá segir sjóðurinn að Seðlabankinn eigi að vera viðbúinn að hækka vexti og auka aðhald peningastefnunnar. Aðspurður um hversu mikið sjóðurinn teldi nauðsynlegt að hækka vexti um svaraði Bhatia því að þótt sjóðurinn hefði ákveðnar hugmyndir um það væri ekki eðlilegt af þeim að tjá sig um ákveðnar tölur í því sambandi.

Á fundinum var Bhatia spurður út í breytingar á ríkisstjórninni og hvort það hefði neikvæð áhrif á áform um losun hafta. Sagði hann að nauðsynlegt væri að hafa starfandi löggjafaþing í þessu máli. Setja þyrfti nokkur mikilvæg lög meðal annars í tengslum við aflandskrónuvandann og áformuð uppboð. Sagði hann gott að sjá að komin væri strax aftur starfhæf ríkisstjórn. Sagðist hann ekki hafa áhyggjur af niðurstöðu kosningar í haust og að hann væri viss um að hver sem lýðræðisleg niðurstaða þjóðarinnar yrði myndu sigurvegarar kosninganna vinna að afléttingu hafta.

Einkavæðing bankanna tekur nokkur ár

Í samantekt sjóðsins er minnst á einkavæðingu bankanna. Bhatia segir í samtali við mbl.is að mikilvægast sé að ríkið sé þolinmótt í því sambandi og finna réttan kaupanda. Kemur fram í samantektinni að best væri að finna trausta kaupendur sem væru erlendir bankar með gott orðspor.

Bhatia segir í samtali við mbl.is að það sé pólitísk ákvörðun hversu stór hluti í bönkunum sé seldur og í raun ekki hans að segja til um hvert það hlutfall ætti að vera. „Aftur á móti er það ekki rétt að selja 2-3 á sama tíma. Eðlilegt væri að ferlið tæki einhver ár,“ segir Bhatia.

Þurfa að vera passasamir með arðgreiðslur

Á sama tíma segir hann að mikilvægt sé fyrir ríkið að passa upp á hversu mikill arður sé tekinn úr bönkunum. Sagði hann bankana standa vel í dag, vera með eigið fé yfir lágmarki, en að arðgreiðslur gætu haft áhrif á lausafé og það mætti ekki gerast. „Það er í lagi að greiða arðgreiðslur, en ríkið þarf að vera fyrirmynd,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka