Minjastofnun mun leggja fram kæru á hendur verktakafyrirtækinu Mannverki vegna niðurrifs Exeter-hússins.
Stofnunin telur að fyrirtækið hafi brotið lög um menningarminjar og lög um mannvirki og segir starfsmaður hennar að yfirlýsing sem fyrirtækið sendi frá sér í dag breyti engu um að friðað hús hafi verið rifið niður án leyfis og það sé lögbrot.
Í yfirlýsingunni sem send var út í morgun eru Minjastofnun, byggingaryfirvöld og almenningur beðin afsökunar á „skorti við aðgát við framkvæmdir á byggingarreit við Tryggvagötu 10-14“, en fyrirtækið er eigandi lóðarinnar.
Frétt mbl.is: Rifu húsið „í góðri trú“
Þá segir einnig að fyrirtækið hefði átt að leita eftir nánari samstarfi við stofnunina um aðferð við framkvæmdirnar áður en sú leið var farin að fella húsið.
„Mannverk lofar því að húsið sem um ræðir verði endurbyggt. Það hefur ávallt staðið til, enda er það í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti og deiliskipulag sem var unnið í nánu samstarfi við Minjastofnun og skipulagsyfirvöld,“ segir í yfirlýsingunni.
Yfirlýsingin sem send var til fjölmiðla í dag er eina svarið sem Minjastofnun hefur fengið frá Mannverki. Stofnun gaf fyrirtækinu kost á að skýra mál sitt áður en kæran yrði lögð fram. Yfirlýsingin hefur ekki áhrif á fyrirætlanir stofnunarinnar um að kæra fyrirtækið.
„Sú skýring sem þeir gefa breytir engu hvað varðar það að þetta verður kært. Það breytir því ekki gagnvart Minjastofnun að það voru brotin lög um menningarminjar, friðað hús var rifið án leyfis. Í yfirlýsingunni er vísað til þess að þeir hafi verið í þeirri trú að byggingarleyfið sem þeir hafi fengið frá Reykjavíkurborg hafi veitt þeim heimild til að rífa húsið,“ segir Guðný Gerður Gunnarsdóttir, sviðsstjóri hjá Minjastofnun.
Hún bendir á að stofnunin sjái um að framfylgja lögum um menningarminjar. Ef eiga við eða rífa eigi friðað hús þurfi að sækja um leyfi til stofnunarinnar en það var ekki gert í þessu tilviki.
Guðný Gerður segir brotið tvíþætt þar sem það snúi einnig að lögum um mannvirki. Minjastofnun er falið að hafa eftirlit með friðuðum húsum en byggingarfulltrúi framfylgir lögum um mannvirki. „Það þarf alltaf leyfi byggingarfulltrúa til að rífa hús og ef það er friðað eða friðlýst hús þarf líka leyfi Minjastofnunar,“ segir Guðný Gerður.
Næsta skref er að fara betur yfir málið og hitta byggingarfulltrúa og leggja fram kæru hjá lögreglu. Líkt og kom fram í yfirlýsingunni hefur Mannverk boðist til að endurbyggja húsið.
„Við þurfum bara að meta það og með hvaða hætti það verður hægt. Það er auðvitað þannig að það er búið að rífa gamla húsið, það er búið að rífa friðað hús. Það að byggja nýtt, þó að það sé líkt eftir gamla húsinu þá er það nýtt hús en ekki gamalt hús, það er sá grundvallarmunur að það er horfið friðað hús.
Það hafði gildi af því að það var gamalt og af ákveðinni gerð. Það er hægt að líkja eftir og gefa húsum útlit eins og þau væru gömul en það breytir því ekki að það er annað hús, það er nýtt hús,“ segir Guðný Gerður.
mbl.is hefur ítrekað reynt að ná tali af framkvæmdastjóra Mannverks í dag en án árangurs.