Hafa kært Öldu Hrönn

Alda Hrönn Jóhannsdóttir
Alda Hrönn Jóhannsdóttir mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
Tveir sakborningar í LÖKE-málinu svokallaða, fyrrverandi starfsmaður fjarskiptafyrirtækisins Nova, og lögreglumaðurinn Gunnar Scheving Thorsteinsson, sem sætti ákæru í málinu, hafa kært Öldu Hrönn Jóhannsdóttur, fyrrverandi varalögreglustjóra á Suðurnesjum og núverandi aðallögfræðing lögreglu höfuðborgarsvæðisins, til embættis héraðssaksóknara fyrir rangar sakargiftir og meint brot í starfi.
Ríkisútvarpið greinir frá þessu en lögfræðingur mannanna staðfestir upplýsingarnar í samtali við mbl.is. 

Tvímenningarnir lögðu fram kærur á hendur Öldu Hrönn í dag. Þar er þess krafist að meint brot hennar, í tengslum við rannsókn LÖKE-málsins verði rannsökuð, hún ákærð og dæmd til refsingar.

Þá er þess krafist að Alda Hrönn verði svipt embætti sínu hjá lögreglu höfuðborgarsvæðisins og sömuleiðis lögmannsréttindum. Ríkissaksóknari sagði í mars í fyrra að gögn málsins gæfu ekki til kynna að Alda Hrönn hefði rannsakað málið án heimildar. 

Maðurinn sem starfaði hjá Nova, þegar málið kom upp, sakar Öldu Hrönn um brot á friðhelgi einkalífs hans og ærumeiðandi aðdróttanir sem kostuðu hann starfið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert