Mestur eða allur orkuarður fari í þjóðarsjóð

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, viðraði í dag hugmyndir um þjóðarsjóð.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, viðraði í dag hugmyndir um þjóðarsjóð.

Nýr stöðugleikasjóður eða þjóðarsjóður sem væri að fyrirmynd sjóða eins og norska olíusjóðsins gæti fengið tugi milljarða í framlög á hverju ári í gegnum arðgreiðslur frá orkufyrirtækjum sem eru í eigu ríkisins. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir að nú sé skynsamlegt að nýta góða stöðu efnahagsmála og búa í haginn fyrir framtíðina. Segir hann sjóðinn geta orðið mjög stóran á einum eða tveimur áratugum.

Bjarni kynnti hugmyndir um slíkan sjóð á ársfundi Landsvirkjunar í dag. Í samtali við mbl.is eftir fundinn segir Bjarni að stærstur hluti arðgreiðsla orkufyrirtækja ætti að fara í sjóðinn. „Ég hugsa þetta þannig að við verjum öllum eða í það minnsta öllum meginþorra afraksturs orkunýtingar í landinu að byggja upp þennan sjóð,“ segir hann.

Á fundinum kom fram í máli forsvarsmanna Landsvirkjunar að þeir gerðu ráð fyrir að á næstu 2-3 árum gæti fyrirtækið farið að greiða 10-20 milljarða í arðgreiðslur á ári. „Þessar tölur tala sínu máli,“ segir Bjarni aðspurður um mögulega stærð sjóðsins. „Ef menn halda sig við efnið og kvika ekki frá áformunum getur þetta á einum eða tveimur áratugum orðið verulega myndarlegur sjóður sem í margvíslegu samhengi myndi styrkja stöðu okkar efnahagslega,“ bætir hann við.

Bjarni segir sjóðinn einnig geta virkað sem hagstjórnartæki með því að vera stöðugleikasjóður. Segir hann að þannig gæti ríkið í mjög þröngri stöðu líta til sjóðsins og nýta ávöxtun hans í einhverjum mæli til að styrkja innviði í landinu. „Við ytri óvænt áföll gætum við með að sækja í sjóðinn komið í veg fyrir skuldasöfnun og komist með almenning og hagkerfið að öðru leyti í betra skjól,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert