Herjólfur mun sigla til Landeyjahafnar í dag í fyrsta skipti í rúma fjóra mánuði en síðast var siglt til hafnarinnar undir lok nóvember 2015. Af því tilefni bjóða Eimskip, SS og Ölgerðin farþegum Herjólfs upp á grillaður pylsur og drykki við afgreiðslu Herjólfs í Vestmannaeyjum.
Fyrsta ferð dagsins klukkan 08:00 var farin frá Vestmannaeyjum til Þorlákshafnar en nú fyrir skömmu var tilkynnt að siglt yrði til Landeyjahafnar klukkan 15:30, í stað Þorlákshafnar. Sama gildir um síðustu ferð dagsins kl. 21:00.
Ferðir helgarinnar eru sem hér segir:
VEY 15:30, LAN 16:30
VEY 21:00, LAN 22:00
Farþegar sem áttu bókað frá Eyjum 15:30 til Þorlákshafnar færast í 15:30 ferð til Landeyjahafnar. Farþegar sem áttu bókað frá Þorlakshöfn 19:15 færast í 16:30 ferð frá Landeyjahöfn en geta einnig haft samband við afgreiðslu og farið kl. 22:00. Biðlistar eru óbreyttir.
Í fréttatilkynningu frá Eimskip eru farþegar beðnir um að fylgjast vel með upplýsingum um ferðir á heimasíðu Herjólfs. Þá er vitnað í Gunnlaug Grettisson, rekstrarstjóra Herjólfs.
„Það er gleðiefni að Herjólfur sigli nú loks til Landeyjahafnar eftir erfiðan vetur. Bæjarlífið mun klárlega taka kipp og farþegar munu streyma til Vestmannaeyja um höfnina næstu mánuði.“