Mannverk fær frest til mánudags

Exeter-húsið við Tryggvagötu áður en það var rifið.
Exeter-húsið við Tryggvagötu áður en það var rifið. Ljósmynd/ Reykjavíkurborg

Minjastofnun Íslands hefur veitt verktakafyrirtækinu Mannverk frest fram á mánudag til að gera betur grein fyrir máli sínu vegna niðurrifs Exeter-hússins við Tryggvagötu.

Að sögn Kristínar Huldar Sigurðardóttur, forstöðumanns Minjastofnunar Íslands, kveða reglur á um að veita þurfi frest í málum sem þessum.

„Við þurfum að veita þeim frest til að útskýra málið. Við veittum hann út mánudaginn,“ segir Kristín Huld

Stofnunin hefur því ekki lagt fram kæru í málinu en að sögn Kristínar er ólíklegt að ekki verði kært.

Frétt mbl.is: Minjastofnun heldur kærunni til streitu

Yfirlýsingin sem send var til fjölmiðla á miðvikudag er eina svarið sem Minjastofnun hefur fengið frá Mannverki síðan húsið var rifið.

Fyrirtækið hefur beðið Minjastofnun, byggingaryfirvöld og almenning afsökunar á skorti á aðgát þegar það ákvað að rífa húsið, sem var friðað. 

Frétt mbl.is: Rifu húsið „í góðri trú“

Mannverk ætlar að endurbyggja húsið. Svona mun götumyndin líta út …
Mannverk ætlar að endurbyggja húsið. Svona mun götumyndin líta út eftir að framkvæmdum lýkur. Mynd/Aðsend

Kæruferli vegna niðurrifs í Bolungarvík

Annað samskonar kærumál er í gangi hjá Minjastofnun Íslands vegna húss sem var rifið við aðalgötuna í Bolungarvík fyrir tveimur árum síðan.

Að sögn Kristínar var um að ræða aðila sem átti ekki húsið, sem tók upp á því að láta rífa það með gröfu. Hluti hússins var rifinn áður en framkvæmdin var stöðvuð.

„Svona mál eru ný fyrir okkur. Við höfum ekki þurft að standa í svona löguðu áður. Málið á Bolungarvík gerðist  fyrir tveimur árum og okkur finnst það nokkuð langur ferill,“ segir hún um stöðuna á því máli.

Mbl.is náði tali af Jónasi Má Gunnarsyni, framkvæmdastjóra hjá Mannverki. Hann vildi ekkert tjá sig frekar um samskiptin við Minjastofnun og sagði að yfirlýsingin sem fyrirtækið sendi frá sér verði látin duga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert