Óttar Yngvason, hrl. og stjórnarmaður í Alþýðuhúsi Reykjavíkur ehf., segir innlenda aðila eiga sjálfseignarfélögin Fjölni og Fjalar, stærstu hluthafana í Alþýðuhúsi Reykjavíkur. Hann vill ekki upplýsa hvaða innlendu aðilar þetta eru.
Þetta kemur fram í tölvubréfi Óttars til Morgunblaðsins, sem sent var í tilefni af umfjöllun um eignarhald á fasteign sem Samfylkingin leigir á Hallveigarstíg 1 í Reykjavík. Húsnæðið er 392 fermetrar og samkvæmt fasteignaskrá er það í eigu Alþýðuhúss Reykjavíkur og Sigfúsarsjóðs. Félögin Fjölnir og Fjalar eiga hvort um sig ríflega 40% hlut í Alþýðuhúsi Reykjavíkur.
Samkvæmt ársreikningi Alþýðuhúss Reykjavíkur fyrir árið 2014 eru Fjölnir og Fjalar erlend félög með erlenda kennitölu. Þau voru sögð sjálfseignarfélög. Þær upplýsingar hafa fengist hjá Ríkisskattstjóra að félögin séu þar ekki á skrá og að sjálfseignarfélag sé hugtak sem embættið „noti ekki“, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.