„Þetta snýst ekki um peninga, heldur réttlæti fyrir eiginkonu mína“

Shelagh Donovan ferðaðist til Íslands ásamt eiginmanni sínum og syni …
Shelagh Donovan ferðaðist til Íslands ásamt eiginmanni sínum og syni síðastliðið sumar. Hún lét lífið við Jökulsárlón í hörmulegu slysi. Ljósmynd/ Michael Boyd

Kanadamaðurinn Michael Boyd missti eiginkonu sína í hörmulegu slysi við Jökulsárlón í ágúst  þegar hjólabátur bakkaði á þau og táningsson þeirra á bílastæði við lónið. Eiginkona hans, Shelagh, lést samstundis. Boyd segist ekkert hafa heyrt neitt frá lögregluyfirvöldum né ferðaþjónustufyrirtækinu eftir slysið og segir öryggisráðstöfunum hafi verið verulega ábótavant.

Hann segir að í raun þyki honum það „gersamlega viðbjóðslegt“ að enginn hafi verið í sambandi við hann eftir slysið sem hafi verið honum og börnum þeirra þremur gífurlegt áfall og missirinn ólýsanlegur. Lögreglan á Suðurlandi kannast ekki við þetta og segist í samtali við mbl.is hafa verið í sambandi við lögmann mannsins. Starfsmenn Jökulsárlóns ehf. segjast hafa reynt að hafa samband við aðstandendur í kjölfar slyssins. 

Michael Boyd ásamt börnunum þremur sem misstu móður sína í …
Michael Boyd ásamt börnunum þremur sem misstu móður sína í ágúst. Ljósmynd/ Michael Boyd

Fyrsta ferð fjölskyldunnar til Íslands

Í viðtali við mbl.is segir Boyd að þetta hafi verið fyrsta ferð þeirra hjóna til Íslands. „Yngsti sonur okkar, Stephen, var að ljúka grunnskóla og við ákváðum að fara í skemmtilegt frí, þrjú saman. Eldri börnin okkar urðu eftir í Kanada þar sem þau voru að vinna og höfðu ekki tíma til að koma með.“

Boyd lýs­ir slys­inu í helstu atriðum með sambærilegum hætti og gert er í lög­reglu­skýrslu lögreglunnar á Suðurlandi um at­vikið, en mbl.is hefur skýrsluna undir höndum.

 „Við vorum í þyrluferð og þyrlan þurfti að stoppa við Jökulsárlón til að taka eldsneyti, og svo var ferðinni heitið aftur til Reykjavíkur. Þetta var síðasta stoppið okkar á Íslandsferðalaginu. Ég og sonur minn vorum að virða fyrir okkur nokkrar kindur sem voru að bíta gras skammt frá bílaplaninu og konan mín gekk örstuttan spotta í hina áttina. Síðasta myndin sem hún tók á myndavélina var af hjólabát á bílaplaninu, þó ekki þeim sem keyrði á okkur.“

Jökulsárlón er einn fjölsóttasti ferðamannastaður Íslands.
Jökulsárlón er einn fjölsóttasti ferðamannastaður Íslands. Rax / Ragnar Axelsson

Síðustu orðin hennar voru „Guð minn góður“

„Við gengum svo öll í átt hvert að öðru þar sem þyrlan hafði komið til baka og var að lenda. Við stóðum þrjú saman og horfðum til austurs, í átt að þyrlunni, að bíða eftir að þyrluspaðarnir stöðvuðust og það var þó nokkur hávaði frá þyrlunni. Við höfðum ekki hugmynd um það að 52 metrum fyrir aftan okkur höfðu farþegar farið um borð í hjólabát og hann var að bakka beint á okkur.

Ég var í miðjunni, konan mín var við vinstri hlið mér og sonur minn lengst til vinstri.  Allt í einu bakkar farartækið beint á okkur, án allrar viðvörunar. Sonur minn stökk til hægri frá hjólabátnum, ég kastaðist á jörðina og farartækið fór beint yfir mig, hjólið var nokkrum sentimetrum frá andlitinu á mér. Eiginkona mín var hinsvegar beint fyrir aftan hægra afturhjólið, hún kastaðist á jörðina. Síðustu orðin sem ég heyrði hana segja voru, „Hvað er að gerast?“ og svo „Guð minn góður.“ Hún lenti beint undir hjólinu og dó samstundis. “

Bakkmyndavél hjólabátsins biluð

 Slysið var tilkynnt til lögreglu kl. 17:14 með upplýsingum um að hjólabát hefði verið bakkað á konu við lónið, en ekki fylgdu upplýsingar um áverka eða líðan, en fljótlega var svo aftur hringt til lögreglu um að forgangur væri F1 (mesti hraði) og að ekki greindist lífsmark með konunni. Læknir frá Höfn og sjúkraflutningamaður komu á vettvang skömmu síðar og endurlífgunartilraunum var hætt. 

Skipstjóra hjólabátsins Jaka var tilkynnt að vegna eðlis slyssins hefði hann fengið réttarstöðu sakbornings. Í lögregluskýrslu stendur að þegar skipstjóri hefði fengið merki frá starfsmanni, sem gengdi því starfi að ganga úr skugga um að óhætt væri að bakka, þá hefði hann bakkað í því skyni að snúa farartækinu við. Skipstjórinn sagði einnig í skýrslunni að „bakkmyndavélar væru á öllum hjólabátum fyrir utan þennan, myndavélin hefði verið biluð og því hefði hann ekki getað nýtt sér hana til að sjá aftur fyrir bátinn.“

Öryggi á svæðinu ábótavant

Boyd segir að það sé „gersamlega ómögulegt“ að skýringar konunnar sem gaf merki um að enginn væri fyrir aftan hjólabátinn séu réttar. „Við stóðum kyrr, beint fyrir aftan hjólabátinn þegar hann byrjaði að bakka.“

Spurður hvort hann telji að öryggi hafi verið ábótavant á svæðinu segir hann að engin viðvörunarskilti eða starfsfólk hafi verið á svæðinu. „Það var ekkert bakkhljóð frá hjólabátnum og myndavélin í honum var biluð. Ég sá hinsvegar í netfréttum nokkru síðar að girðing hefði verið sett upp í kringum hjólabátasvæðið eftir slysið og viðvörunarskilti.“

Í frétt mbl.is sem birtist rétt eftir slysið segir að meðal þeirra atriða sem væru til rann­sókn­ar væri „hvort aðstæður á vett­vangi séu ófull­nægj­andi í ljósi þess mikla fjölda sem heim­sæk­ir lónið.“

Sam­kvæmt sam­an­tekt sem Vatna­jök­ulsþjóðgarður lét vinna yfir heim­sókn­ir á ár­un­um 2005 til 2012 kem­ur fram að 74.000 Íslend­ing­ar og um 180.000 er­lend­ir ferðamenn hafi heim­sótt Jök­uls­ár­lón árið 2012. Miðað við töl­ur um fjölg­un ferðamanna má gera ráð fyr­ir að fleiri er­lend­ir ferðamenn sæki lónið heim í ár. 

Ein af síðustu myndunum sem náðust af Shelagh á ferðalagi …
Ein af síðustu myndunum sem náðust af Shelagh á ferðalagi sínu um Ísland, en hér er hún með yngsta syni þeirra hjóna. Ljósmynd/Michael Boyd

Rannsókn á lokastigi

Í samtali við mbl.is í dag segir Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðarlögreglustjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi að rannsókn málsins sé á lokastigi. „Henni er lokið að öllu leyti en við erum að bíða eftir gögnum, það er krufningarskýrsla sem við bíðum eftir.“ Spurður hvers vegna enginn hafi verið í sambandi við eiginmann hinnar látnu eða veitt honum svör, svarar hann: „Ég kannast ekki við það. Þau eru með lögmann og við höfum verið í samskiptum við hann.“

Í samtali við eiganda Jökulsárlóns ehf., Einar Björn Einarsson segist hann ekki geta gefið nánari upplýsingar um rannsókn málsins þar sem hún sé alfarið hjá lögreglu, en ítrekar að öryggi á svæðinu hafi verið bætt strax eftir að slysið átti sér stað. Katrín­ Ósk Ásgeirs­dótt­ir, rekstr­ar­stjóri Jök­uls­ár­lóns ehf. segir að þau hafi reynt að hafa samband við aðstandendur í kjölfar slyssins en það hafi reynst erfitt. „Við náðum ekki í feðgana og reyndum svo að hafa samband í gegnum hótelið sem þeir gistu á og það voru tölvupóstar sendir.“  

Katrín bætir við að rannsókn málsins sé alfarið í höndum lögreglu. „Það er ekkert skrýtið að aðstandendur séu ósáttir. Ég skil það vel. Rannsókn málsins er búin að taka gríðarlega langan tíma. Nú er kominn apríl og slysið átti sér stað í ágúst í fyrra.“

Sambærilegur hjólabátur og ók yfir Shelagh í ágúst 2015 með …
Sambærilegur hjólabátur og ók yfir Shelagh í ágúst 2015 með þeim af afleiðingum að hún lét lífið samstundis. Sarey Poppins Flickr// https://www.flickr.com/photos/sarey-poppins/

Töluverðar umbætur gerðar á öryggi eftir slysið

Deil­ur hafa lengi staðið um upp­bygg­ingu var­an­legr­ar aðstöðu fyr­ir ferðafólk á svæðinu aust­an við Jök­uls­ár­lón. Aðstaðan hef­ur lítið breyst und­an­far­in 20 ár og hef­ur þar af leiðandi ekki haldið í við þá miklu fjölg­un ferðamanna sem hef­ur átt sér stað á síðastliðnum árum. Nýlega samþykkti sýslumaðurinn á Suðurlandi beiðni um nauðungarsölu á Jökulsárlóni og í gær lögðu þingmenn Framsóknarflokksins, Ásmund­ur Ein­ar Daðason og Har­ald­ur Ein­ars­son fram erindi um að stjórnvöld leiti allra leiða til að grípa inn í þetta mál og að það verði tekið upp á vettvangi Alþingis. Í dag kynnti svo umhverfisráðherra málið fyrir ríkisstjórn og aðspurð hvað hún vilji gera í þess­um efn­um seg­ir hún aðal­málið vera að tryggja að Jök­uls­ár­lón séu í ör­uggri höfn.

Tölu­verðar um­bæt­ur hafa að sögn Landsbjargar verið gerðar í slysa­vörn­um við Jök­uls­ár­lón fyr­ir komandi sumar; sett hafa verið upp skilti, bílastæði afmörkuð og björgunarlykkja sett upp við lónið. 

Nú eru átta mánuðir liðnir frá banaslysinu við Jökulsárlón og Boyd, sem er með lögfræðing í málinu, segir að hann hafi ekkert heyrt frá yfirvöldum á Íslandi um hvernig rannsóknin standi og hver beri ábyrgð á þessum harmleik. „Ég hef ekki heyrt aukatekið orð frá neinum á Íslandi síðan að við fórum heim.“ En fékk hann bréf eða símtal frá ferðaþjónustufyrirtækinu sem rekur hjólabátana? „Ekkert, ekki orð.“

Sorgin er ólýsanleg

Boyd segir að lögfræðingur hans hafi greint honum frá því að tryggingarfyrirtækið sem annast ferðaþjónustufyrirtækið á Jökulsárlóni sé að bíða eftir niðurstöðu lögreglurannsóknar og hvort kæra verði lögð fram. „Ég vil segja þér í allri einlægni að þetta snýst engan veginn um peninga. Þetta snýst um einhverskonar réttlæti fyrir látna eiginkonu mína og að einhver taki ábyrgð.  En sorgin sem ég og fjölskylda mín höfum gengið í gegnum vegna fráfalls konu minnar er eitthvað sem ég get ekki með orðum lýst. “

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka