Fundur þátttakanda á vinstri væng íslenskra stjórnmála sem haldinn er að frumkvæði Magnúsar Orra Schram tengist ekki framboði hans til formanns Samfylkingarinnar. Málshefjendur eru með þátttöku sinni ekki að lýsa stuðningi við Magnús.
Þetta segir Magnús Orri í samtali við mbl.is en á fundinum verður rætt um mögulega samvinnu á næsta kjörtímabil og hver næstu skref gætu orðið.
„Þessi hugmynd kviknaði hjá mér, að það væri kannski gott að byrja á því að tala saman og sjá hvort það væri flötur á samvinnu og hvers konar samvinnu. Samtalið er besta upphafið og orðið er til alls fyrst. Það var nú bara hugmyndin. Þessi fundur tengist ekki formannsframboði sem slíku,“ segir Magnús Orri.
Frétt mbl.is: Ræða samvinnu „umbótaaflanna“
„Það er gríðarleg deigla í gangi hjá þessu fólki sem starfar innan þessara flokka. Við erum búin að sjá það í þinginu að þau hafa talað einum rómi. Við hljótum því að velta því fyrir okkur að taka þetta eitthvað áfram. Það er hugmyndin með þessum fundi, byrja bara að spjalla. Það verða stuttar framsögur frá hverju og einu og svo ætlum við að byrja samtalið,“ segir hann einnig.
Tengist þetta framboði þínu til formanns Samfylkingarinnar?
„Nei. Þetta er í anda þeirra stjórnmála sem ég vil reka. Þetta er í anda þess að við eigum frekar að horfa á verkefnin en flokkana eða egóin. Það skiptir miklu meira máli,“ segir Magnús.
Málshefjendur koma úr röðum Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata, Bjartrar framtíðar og Hreyfingarinnar og er fundarstjóri Magnús Orri Schram.Þau eru sem fylgir: Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður, Ilmur Kristjánsdóttir borgarfulltrúi, Margrét Tryggvadóttir fyrrverandi þingmaður og Rósa Björk Brynjólfsdóttir varaþingmaður.
Hvert og eitt verður með stutta framsögu út frá spurningunni „Eigum við að vinna saman?“ og því næst verða umræður.
Frétt mbl.is: Magnús Orri býður sig fram